Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 66
65
er engin furða þótt svo sé, það eru ekki til nein gefin svör við spurningum á
borð við „hvað er skýrigildi?“, „hvað er nákvæmni og einfaldleiki?“ o.s.frv.
Þess vegna sé rúm fyrir huglægni og estetískt mat í vísindum. Vinsældir
kenninga Einsteins stöfuðu ekki síst af því hve fagrar þær þóttu.68
Að jafnaði hnigni viðtökum vegna þess að frávik (e. anomalies) frá
staðli viðtaksins hlaðast upp hraðar en vísindamennirnir megna að leysa
þau með viðteknum aðferðum. Er viðtökin deyja (eða virðast dauðvona)
hefst skeið byltingarvísinda þar sem hver höndin er uppi á móti annarri.
Vísindamennirnir deili þá jafnvel um grundvallaratriði, rétt eins og fræði-
menn á tímum for-viðtaka-fræða (e. preparadigmatic science), þ.e. þeirrar
fræðimennsku sem stunduð sé í tilteknu fagi áður en það „viðtaka-væð-
ist“. Alveg eins og for-viðtakamenn skrifi byltingarvísindamenn oft þykkar
bækur, jafnan um grundvallaratriði fagsins, og beini orðum sínum þá jafnt
til upplýsts almennings sem starfssystkina sinna. En venjuvísindamenn
skrifi yfirleitt bara stuttar fræðigreinar, á blómaskeiði viðtaka eru það bara
útskúfuðu (og skúffuðu!) vísindamennirnir sem setja saman bækur. Á bylt-
ingarskeiðinu þegar hin sígilda eðlisfræði Newtons var í upplausn skrif-
uðu margir frægir vísindamenn slíkar skruddur (Kuhn notar ekki þetta
dæmi). Til dæmis skrifaði Niels Bohr bók um frumeindafræði þar sem
hann boðaði heimatilbúna frumspeki.69 Einnig deildi hann við Einstein
um grundvallarforsendur frumeindafræðanna. Bohr var þeirrar hyggju að
tilviljun réði miklu um ferðir öreinda, það ríktu ekki járnhörð náttúrulög-
mál í heimi örsmæðarinnar. Einstein brást ókvæða við og sagði sem frægt
er orðið að Guð kastaði ekki teningum, örsmæðin hlyti að vera undirlögð
járnhörku lögmála þótt vísindamennirnir hefðu ekki fundið þessi lögmál
enn. Svo fór að kenning Bohrs (og Werners Heisenberg) varð ofan á og
varð hluti af nýju viðtaki í eðlisfræði.70 Því á byltingarskeiðum eru spilin
stokkuð upp á nýtt og svo er gefin ný gjöf, eins og Kuhn bendir á. Á end-
anum sameinist vísindamennirnir um nýtt viðtak og að nýtt skeið venjuvís-
inda hefjist.71
68 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 156–159, Thomas Kuhn,
Vísindabyltingar, bls. 313–319.
69 Niels Bohr, Atomteori og naturbeskrivelse, Kaupmannahöfn: Schultz, 1958.
70 Um þetta umrótarskeið í sögu eðlisfræðinnar má fræðast víða, sjá t.d. J.D. Bernal,
Science in History iii, The Natural Sciences in our Times, Penguin: Harmondsworth,
1969.
71 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 92–110, Thomas Kuhn,
Vísindabyltingar, bls. 211–240.
ViðTöK OG VÍSiNDi