Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 83
82
til að styrkja sjálfstæði landsins og hlutleysi – og glímunni við utanaðkom-
andi óvini. Samt sem áður er hún meðvituð um galla þessarar harmrænu
hetju. Þannig kemur hann fram í leikritinu sem kameljón: fordómafullur
glaumgosi, en líka glæsilegur stjórnmálamaður, tilfinningasamur og sérvit-
ur leiðtogi sem vex að verðleikum eftir því sem dregur úr stjórnmálaáhrif-
um hans heima fyrir. Gayatri Chakravorty Spivak hefur gagnrýnt Cixous
fyrir að gera of lítið úr einræðistilburðum Sihanouks og réttlæta völd hans
á sömu forsendum og hann gerði sjálfur, þ.e. að hann væri holdgervingur
kambódísku þjóðarinnar og sá eini sem væri fær um að túlka vilja hennar.14
Þótt margt sé til í því þarf að líta til þess að Cixous er upptekin af stöðu
Sihanouk og tilraun hennar felst í að greina aðdráttarafl hans sem stjórn-
málamanns, í hverju það lýsti sér og hvaða mann hann hafði að geyma.
Enginn hafði þá pólitísku burði sem hann hafði: Hann var óskoraður leið-
togi bæði á heimavelli og erlendis. Hann skirrðist hins vegar ekki við að
nota hálf-guðdómlega stöðu sína í þágu lýðskrums og það kemur skýrt
fram í leikritinu.
Les Essif, sem hefur fjallað um birtingarmyndir menningartogstreitu
Bandaríkjamanna og Kambódíumanna í leikritinu, heldur því fram að
opinská framkoma Sihanouks og „ópólitísk einfeldni“ séu dæmi um með-
vitaða menningarhæfileika hans.15 Hreinskilni Sihanouks í samskiptum
hans við fulltrúa bandaríska heimsveldisins þjónaði vissulega því markmiði
að viðhalda hlutleysi Kambódíu. En grímulausir pólitískir hagsmunir réðu
því einnig að hann beitti stjórnarandstæðinga harðræði þegar það hent-
aði honum. Þrátt fyrir það verður ekki fram hjá því litið, eins og Cixous
leggur áherslu á, að lýðræðislegt umboð Sihanouks til að stjórna landinu
var mun meira en andstæðinga hans. Hann var alla tíð mjög vinsæll meðal
bændastéttarinnar sem mikill meirihluti þjóðarinnar tilheyrði.
Cixous notar ákveðna gerð „vofutækni“ í skrifum sínum til að miðla
minningum milli kynslóða. Í Sihanouk gengur faðir Sihanouks, Norodom
14 Gayatri Chakravorty Spivak, Outside in the Teaching Machine, New York: Routledge,
1993, bls. 159.
15 Sjá Les Essif, „The „Unfinished Story of American Global Totalitarianism“, Text
and Presentation, ritstj. Graley Herren, Jefferson, North Carolina: McFarland &
Company, inc. Publishers, 2014, bls. 151–163; sjá einnig Les Essif, „The Terrible
but Unfinished Story of Norodom Sihanouk, King of Cambodia (L’Histoire terrible
mais inachevée de Norodom Sihanouk, roi de Cambodge). American unculture in light
of Cambodian cosmopolitanism culture“, American „Unculture“ in French Drama.
Homo Americanus and the Post-1960 Resistence, Basingstoke: Palgrave, 2013, bls.
161–163.
iRma eRlingsDóttiR