Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 33
32
sem ég tel skipta mestu máli fyrir þessa sögu. Eins mun ég aðeins koma
lítillega inn á orðsifjafræði, en hún gefur mjög takmarkaða mynd og hefur
stundum reynst villuljós. Þó orðsögulegur grunnur skipti vissulega máli er
mikilvægara hvernig orðin mótast og fá merkingu í deilum um innihald
þeirra og yfirráð yfir merkingarsviðum þeirra. Það skiptir mun meira máli
fyrir skilning á fyrirbærunum sem við erum að fást við en hugmynd um
einhvern raunverulegan eða ímyndaðan kjarna í upprunanum.
Þrátt fyrir takmarkaðar heimildir um notkun orðanna fyrir aldamótin
400 hefur ekki skort kenningar um að historía og filosofía sem fyrirbæri hafi
verið til löngu fyrr. Í þessu felst þó lítið annað en yfirfærsla kenninga frá
4. öld yfir á eldri tíma. Fátt bendir til að þeir sem við lítum á sem heim-
spekinga fyrir tíma Platons hafi litið á viðfangsefni sitt sem filosofía eða að
þeir sem rannsökuðu fyrri sögu og náttúruleg fyrirbæri hafi talið sig vera
að fást við historía. Þessar hugmyndir eru yngri, en strax í fornöld eru þær
heimfærðar á fyrri tíma.16 Platon og Aristóteles bera mikla ábyrgð á þessu
en einnig sagnaritarar sem koma á eftir Þúkýdídesi og tilraunir þeirra til að
skilgreina sögu og eðli sögulegrar þekkingar.
III
Orðið historía er byggt á stofninum histōr (ἱστῶρ)17, sem sjálfur er settur
saman með viðskeytinu –tōr og rótinni *w(e)id. Orðið histōr finnst í elstu
varðveittu textum og mjög víða í forngrískum bókmenntum (hjá Hómer,
Hesíódosi, lýrísku skáldunum, harmleikjaskáldunum og fleiri).18 Lengi
vel var sú kenning á lofti að orðið merkti vitni og var sú merking aðal-
lega dregin af rótinni, sem er rótin í eidos, idea, video og fleiri orðum sem
tengjast sjón (að vita er af sömu rót).19 Þeirri kenningu hefur að mestu
16 Andrea Wilson Nightingale hefur fært sannfærandi rök fyrir róttækri breytingu á
skilningi manna á heimspeki sem á sér stað á 4. öld, í Spectacles of Truth in Classical
Greek Philosophy. Theoria in its Cultural Context, Cambridge: Cambridge University
Press, 2004. Samfara þessari breytingu á sér stað endurskoðun á fræðilegri hugsun
fyrri alda þannig að 4. aldar skilningur er heimfærður á 5. og 6. öld. Þessi 4. aldar
endurskoðun hefur verið hluti af skilningi okkar á fræðunum og sögu þeirra síðan.
17 Eða istōr (ἴστωρ), en það skiptir ekki máli í þessu samhengi. Orðið virðist upp-
haflega hafa verið ritað ϝίστωρ.
18 Sjá yfirlit og umfjöllun í Eiríkur Smári Sigurðarson, Studies in Historia, kafla i,
sérstaklega bls. 20–24.
19 Pierre Chantraine, Dictionnaire étymologique de la langue grecque. Histoire des mots,
Paris: Klincksieck, 2009. Samkvæmt honum er histōr „celui qui sait pour avoir vu
ou appris“, sama rit, bls. 751.
eiRíkuR smáRi siguRðaRson