Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 82
81
Sihanouk sem holdgervingur þjóðar
Í leikritinu er Sihanouk kynntur til leiks sem konungur allra kynslóða og
gæslumaður menningararfs Kambódíu. Hann er tákngervingur þessa lands
eða eins og hann kemst sjálfur að orði: „Ég er ár, fljót, hrísakrar og fjöll
Kambódíu“.11 Þótt oft gæti kaldhæðni í leikritinu í garð hinnar „eilífu“
Kambódíu þá er ímyndum beitt til að greina sögu og menningarlegt hlut-
skipti landsins. Þetta á ekki síst við um Sihanouk: Hann gegnir fastmótuðu
hlutverki sem hefur ekki aðeins þýðingu í kambódísku samhengi heldur
einnig sem liður í rannsókn Sólarleikhússins á hinni shakespearísku leik-
ritahefð. Sihanouk stendur vörð um fullveldi Kambódíu og þjóðlegar hefð-
ir gegn erlendum árásaraðilum sem herja á landið í krafti sögulegs fjand-
skapar (Víetnamar) og hernaðaríhlutunar í Víetnam (Bandaríkjamenn).
Til að koma í veg fyrir að andstæðingarnir, hvort sem þeir eru innlendir
eða útlendir, seilist til áhrifa í Kambódíu gerir hann sér far um að forðast
hugmyndafræðilegar öfgar. Hann þarf að gæta þess að halda bæði vinstri
og hægri öflunum í skefjum heima fyrir og jafnframt að tengjast ekki um
of vestrænum kapítalisma eða alþjóðahreyfingu kommúnista í utanrík-
isstefnu sinni.
Í leikritinu lýsir Sihanouk þessari stöðu sjálfur gegnum táknfræðilegt
orðfæri Cixous með eftirfarandi hætti: „Hér erum við, á ystu nöf Asíu!
Sjáið! Hérna! Í forvörn hlutleysis, hvítur fáni, hvorki blár né rauður; dýr-
leg höfn allra dyggða, þessi nýja Paradís, þessi hálfgerði Edensgarður, það
erum við“.12 Markmið Sihanouks reynist þrautinni þyngra. Eins og for-
verar hans á konungsstóli neyðist hann til að grípa til örlagaríkra pólitískra
málamiðlana við erlenda aðila (Bandaríkin, Kína og Norður-Víetnam) og
innlenda andstæðinga (Rauðu khmerana og íhaldssama yfirstétt landsins).
Þekking Cixous á sögu Kambódíu gefur leikritinu meira vægi, en eins
og David Williams hefur bent á eru sögulegar staðreyndir ekki það sem
mestu máli skiptir.13 Eins og í öðrum leikritum Cixous gengur henni til að
fjalla um pólitískt menningarástand í samtímanum í víðari skilningi, ekki
aðeins að ljá fórnarlömbum stríðsátaka og ofbeldis rödd heldur einnig að
beina sjónum að sameiginlegri og einstaklingsbundinni sekt.
Cixous leynir ekki samúð sinni með baráttu Sihanouks – tilraunum hans
11 Hélène Cixous, L’Histoire terrible mais inachevée, bls. 157.
12 Sama heimild, bls. 57.
13 David Williams, „The Terrible but Unfinished Story of Norodom Sihanouk, King
of Cambodia“, TDR 3/1996, bls. 198–200, hér bls. 198–199.
STJÓRNMÁL MiNNiNGA