Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 36
35
Pýþagóras, sonur Mnesarkhosar, stundaði rannsóknir (ἱστορίη)
meira en nokkur annar maður, og þegar hann hafði safnað saman
þessum ritum (ἐκλεξάμενος ταύτας τὰς συγγραφάς) bjó hann til sína
eigin visku (σοφίην), fjölfræði (πολυμαθίην) og fúsk (κακοτεχνίην).
Herakleitos er þekktur fyrir að spila með andstæður, fyrir viðsnúning
og margræðni, og hér byrjar hann með því sem virðist vera jákvæð lýs-
ing á visku Pýþagórasar sem hann snýr síðan upp í alvarlega gagnrýni.
Herakleitos gagnrýnir Pýþagóras fyrir að hafa lært mikið, jafnvel byggt
á eða stolið frá verkum annarra, og búið til sína eigin „visku“ án þess að
skilja nokkuð. Í þessu felst kenning um að það þurfi meira til en lærdóm
– hvort sem hann er kallaður historía eða eitthvað annað – til að öðlast
þekkingu og skilning.30 Hér kemur historía fyrir sem lærdómur sem má
byggja á – og er hugsanlega nauðsynlegt að byggja á – án þess að vera
sjálfur fullnægjandi fyrir þekkingu og skilning – kenning sem við finnum í
ólíkum myndum hjá Platoni og Aristótelesi og víða annars staðar. Þessi til-
vitnun er nokkrum áratugum eldri en Heródótos, eða frá því um eða upp
úr aldamótunum 500.31
Rannsóknirnar sem Herakleitos vísar í eru ekkert frekar sagnfræðilegar
en náttúrufræðilegar í okkar skilningi og oft er erfitt að greina á milli. Í
einu af varðveittum brotum heimspekingsins Demokrítosar (DK68B299)
lýsir hann rannsóknum sínum á hátt sem líkist Heródótosi.32 Þar segist
Demokrítos hafa ferðast mest af samtímamönnum sínum og rannsakað
mest (ἱστορέων τὰ μήκιστα), bæði séð og heyrt mest. Þessi texti hefur verið
notaður til að sýna fram á líkindi með Demokrítosi og Heródótosi og er
vísbending um hvernig „sögulegar“ rannsóknir áttu jafnt við um náttúruna
og fortíðina.
30 Eiríkur Smári Sigurðarson, Studies in Historia, bls. 25–27.
31 Um tímasetninguna sjá t.d. The Texts of Early Greek Philosophy i, ritstj. Daniel W.
Graham, bls. 186.
32 Hugsanlega ætti að segja Plat-Demokrítos, þar sem brotið er almennt ekki talið
ekta og því er oftast sleppt þegar textar eftir hann eru gefnir út. DK (reyndar
bara Diels (D), Kranz (K) var ekki sammála) færa rök fyrir því að textinn tilheyri
Demokrítosi en honum er sleppt í G. Hins vegar eru aðrir sem taka það alvarlega,
m.a. Andrea Wilson Nightingale, Spectacles of Truth in Classical Greek Philosophy, bls.
67–68, og W. K. C. Guthrie, A History of Greek Philosophy II. The Presocratic Tradition
from Parmenides to Democritos, Cambridge: Cambridge University Press, 1965, bls.
386–387. „in his curiosity and zest for travel he resembles a more scientific Her-
odotus“, sama rit, bls. 386.
Í LJÓSi SöGU OG HEiMSPEKi