Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Page 40
39
og heimsækir m.a. Lýdíukonunginn Krösos í Sardis. Krösos, sem var rík-
asti og valdamesti maður í heimi, hittir Sólon og segir :
Jæja, minn aþenski vinur, ég hef heyrt mikið um visku þína og hversu
víða þú hefur ferðast með þrá eftir visku (φιλοσοφέων).44
Í grafræðu Períklesar, eins og Þúkýdídes skrifar hana, segir Períkles um
Aþeninga:
Við dýrkum fegurð án óhófs og spekina (φιλοσοφοῦμεν) án kveif-
arskapar.45
Í báðum þessum tilvikum er greinilega um að ræða notkun orðanna í
almennri merkingu um þá sem hafa áhuga á visku eða þekkingu og það er
ljóst að hér er ekki verið að tala um skilgreindan og afmarkaðan hóp sem
átti sameiginlegar forsendur fyrir þekkingu eða ástundun (allir Aþeningar,
eða allir aþenskir borgarar, eru ekki skýrt afmarkaður hópur).
Þrír textar úr ranni sófistanna vitna um notkun filosof-orða og skiln-
ing á þeim. Gorgías, sem var virkur um og upp úr miðri 5. öld en lifði til
um 380, vitnar í riti sínu, Lofgjörð Helenu (DK82B11; G49[F10]), í heim-
spekinga og mælskukeppnir þeirra (φιλοσόφων λόγων ἅμιλλας, ἐν αἷς
δείκνυνται καὶ γνώμης τάχος) og tekur sem dæmi um mátt orðsins (sem
hann sjálfur kenndi og þjálfaði fólk í) (kafli iii, 13). Orðin virka á sál-
ina eins og lyf á líkamann og hann tekur mælskukeppnir heimspekinga
sem dæmi um hversu auðveldlega fólk getur skipt um skoðun í orðaskaki.
Markmið keppninnar, samkvæmt Gorgíasi, er að sviðsetja skjóta hugsun.
Þetta er innihaldsríkasta lýsingin á filosofía eða filosofos sem við höfum fyrir
daga Platons: Að sýna eða sviðsetja skjóta hugsun.
Pródikos, sem starfaði seint á 5. öld, vísar í menn sem finna sig milli
heimspeki og stjórnmála og eiga hæfilega mikið af hvoru tveggja. Þessi til-
vísun er skólabókardæmi um hversu margslungnar og marglaga heimildir
af þessu tagi geta verið. Tilvitnunin er fengin úr verki Platons Evþýdemos
(305c6-8; d7-8) og er þar lögð í munn Pródikosar. Sókrates talar og segir
(DK84B6; G33[F5]):
44 Heródótos Rannsóknir i, 30, 2.
45 Þúkýdídes, Saga Pelopseyjarstríðsins, þýð. Sigurjón Björnsson, Reykjavík: Sögu-
félagið, 2014, ii. 40.
Í LJÓSi SöGU OG HEiMSPEKi