Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 53
52
stöðuga framþróun vísindanna sem nálgist sannleikann hægt og bítandi.
En að hyggju Kuhns skapa vísindamenn þessa mynd einfaldlega með því að
afgreiða misheppnaðar kenningar fortíðarinnar sem gervivísindi. Það gildi
til dæmis um brunaefniskenningu átjándu aldarinnar. Samkvæmt henni er
til efni sem kallast brunaefni (e. phlogiston) og á að hafa þann eiginleika að
valda bruna. Án brunaefnis, enginn eldur. Þessi kenning hefur að því er
virðist verið hrakin og síðar afgreidd sem gervivísindi, einfaldlega vegna
þess að hún er ekki í samræmi við nútímakenningar. Mér fljúga í hug fleyg
orð franska skáldsins Pauls Valéry: „Aðeins þetta skyldi kallast vísindi, heild
þeirra uppskrifta sem alltaf takast. Hinar eru bókmenntir.“11
Kuhn staðhæfir að nú til dags tali menn nánast eins og það að taka
þekkingarlegum framförum sé skilgreiningaratriði um vísindi. En á endur-
reisnartímanum hafi menn fremur litið á myndlistina sem þungamiðju
slíkra framfara. Málararnir urðu enda æ flinkari að sýna veröldina eins og
hún kom mönnum fyrir sjónir. Ekki var talað um framfarir í vísindum, að
svo miklu leyti sem menn greindu á milli vísinda og lista.12
Hin viðtekna mynd af vísindunum sýnir gamlar, vel staðfestar kenn-
ingar sem sértilvik af nýrri og betri kenningum. Til dæmis á að vera hægt
að leiða meginkenningar Newtons röklega af kenningum Einsteins um
leið og þær síðarnefndu séu víðfeðmari og leiðrétti villur Newtons, t.d.
þá villu að tíminn sé ekki afstæður. Þannig megi líta á kenningar Newtons
sem sértilvik við kenningar Einsteins og skoða kenningar Einsteins sem
framfarir miðað við kenningar Newtons. Þær séu nær sannleikanum en
kenningar Newtons. En Kuhn er efins um að vísindin nálgist sannleikann
stöðugt og að eldri kenningar séu sértilvik af þeim yngri. Vandinn sé m.a.
sá að erfitt sé að ákvarða hver sé hin eiginlega merking orðasambanda
á borð við „sannara en“ (e. truer) eða „nær sannleikanum“. Auðvitað sé
ekki hægt að útiloka að vísindakenningar nálgist sannleikann en erfitt
sé að ákvarða hvað felist nákvæmlega í slíkri nálgun. Flestar kenningar
fyrri tíma hafi reynst rangar, því séu litlar líkur á að kenningar dagsins í
dag séu sannar. Þess vegna sé lítill veigur í því að segja nútímakenningar
nærri sannleikanum, þær séu sennilega jafn ósannar og eldri kenningar.
Niðurstaða Kuhns er sú að staðhæfingar um að kenningar nálgist sann-
11 Í þýðingu minni. Svona er frumtextinn: „il faut n’appeler Science: que l’ensemble des
recettes qui réussissent toujours. Tout le reste est littérature.“ Paul Valéry, Tel quel, París:
Gallimard, 1941, bls. 88.
12 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 161; Thomas Kuhn, Vís-
indabyltingar, bls. 322.
steFán snævaRR