Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2016, Blaðsíða 68
67
svo er ekki eins og síðar mun koma í ljós. En hvað skyldi nú „fræðafylki“
merkja? Til að skilja þetta orð verða menn að vita að „matrix“ eða „fylki“
er hugtak úr stærðfræði sem spannar safn talna sem raðað er í dálka og
línur. Þau (og þar með viðtökin) hafa fjóra þætti: 1) táknlegar alhæfing-
ar (e. symbolic generalizations), 2) frumspekilegan þátt, 3) skóladæmisþátt
(hann er mikilvægastur), 4) gildisþátt. Kuhn talar reyndar á einum stað
um þrjár víddir fræðafylkja, táknlegar alhæfingar, líkön og skóladæmi.76
Við sjáum hér enn eitt dæmið um hve óskýr Kuhn getur verið í hugtaka-
notkun. Stundum talar hann eins og hugtakið um fræðafylki eigi að koma
í stað hugtaksins um viðtök. Á öðrum augnablikum gefur hann í skyn að
fræðafylki sé ákveðin hlið viðtaka.77 Mér sýnist sú nálgun frjóust. Segja
má að fræðafylkin séu leiðarþræðir fyrir framtíðarúrvinnslu úr viðtakinu.
Hin hlið viðtaksins er kenningakerfið sem það hefur skapað og er meðal
burðarása þess.78 Þess vegna kýs ég að slá fræðafylkjum og viðtökum í einn
bálk og nota „viðtök“ yfir bæði.
Víkjum nú að hinum einstöku þáttum fræðafylkjanna. Sem dæmi um
táknlega alhæfingu má nefna lögmál Newtons „k = m*h“ („kraftur er massi
sinnum hröðun“). Slík alhæfing eru sumpart skilgreining, sumpart tjáning
á náttúrulögmáli. innan ramma hins newtonska fræðafylkis virkaði form-
úlan í reynd sem skilgreining þótt vísindamennirnir teldu hana reynslutil-
gátu. Sem skilgreining er hún röklega sönn og því óhrekjanleg, samanber
það sem fyrr er sagt um að þættir viðtaka séu í reynd ekki prófanlegir.79
Viðtök hafa frumspekilega þætti sem eru hlutar þess sérstaka merkingar-
heims sem sérhvert viðtak er. Sé enginn veruleiki algerlega handan málsins
þá er ekki hægt að tala um viðfang vísinda sem sé algerlega óháð málleikj-
um viðtakanna. Sérhvert viðtak er sérstakur heimur. Í Vísindabyltingum gaf
Kuhn berlega í skyn að vísindamenn, sem hafi hver sitt viðtak, lifi í ólíkum
76 Sama rit, bls. 297. Ég held mig við fjórgreininguna m.a. vegna þess að það er
auðveldara að lýsa meginhugmyndum Kuhns í ljósi hennar.
77 „Disciplinary matrix“ er ekki getið sem sjálfstæðs orðasambands í atriðisorðaskrá
bókar Kuhns The Essential Tension. Þar er orðasambandið aðeins nefnt í sambandi
við „paradigm as disciplinary matrix“ (Kuhn, „index“, The Essential Tension, bls.
361). Þetta bendir til þess að Kuhn hafi litið á fræðafylkin sem undirdeild í við-
tökum því gera má ráð fyrir að hann hafi haft hönd í bagga með samningu atrið-
isorðaskrárinnar.
78 Þessi aðgreining er innblásin af Richard Rorty, Philosophy and the Mirror of Nature,
Princeton, N.J.: Princeton University Press, 1979, bls. 323.
79 Thomas Kuhn, The Structure of Scientific Revolutions, bls. 182–185, Thomas Kuhn,
Vísindabyltingar, bls. 355–365.
ViðTöK OG VÍSiNDi