Breiðfirðingur - 01.04.1982, Page 46
44
BREIÐFIRÐINGUR
Þar hitti afí fyrir Hrímnir sinn og varð heldur glaður að sjá hann
þarna bráðlifandi á básnum sínum. Þessir þjökuðu og
fannbörðu hestar stóðu nú þarna við stallinn og bruddu í sig
heyið með góðri lyst, enda áreiðanlega orðnir hungraðir. í
rökkurbyrjun komu leitarmenn heim að Mávahlíð með hestana
sem saknað var. Fundust þeir niður við Litluvík, voru þeir þar
undir bökkunum. Fennt var svo fyrir þá að moka varð í gegnum
stóran skafl svo þeir næðust. Þeir voru allir heilir og ekki mjög
illa á sig komnir. Einn hest komu þeir með sem hafði lent í snjó-
flóðinu. Hann gat rétt gengið, en var auðsjáanlega mikið
skaddaður. Þetta var rauð hryssa frá Tröð sem kölluð var Brana.
Hún lifði nokkra daga, en var svo lógað. Dauðu hestarnir voru
dregnir á stórum sleða sem var smíðaður til þess daginn eftir.
Voru bönd fest í hann. Síðan drógu þeir nágrannar af þremur
næstu bæjum hestana heim á ísinn fyrir neðan Mávahlíð. Þar
voru þeir gerðir til og eitthvað af þeim hirt. Þetta voru þrír ungir
hestar. Jarpur, fimm vetra foli frá Fögruhlíð, sem nefndur var
Hnoðri. Það var gullfallegur foli og leit út fyrir að verða
reiðhestur. Þá var mósóttur foli frá Setbergi í Eyrarsveit og átti
hann sr. Jósep Jónsson. Hann hafði verið í tamningu hjá föður
mínum um sumarið, en dregist að sækja hann. Þriðji hesturinn
var frá Tröð.
Þarna lágu nú þessir helfrosnu hestar á ísnum hlið við hlið.
Ekki þorðum við systurnar fram á ísinn að skoða þá. Það var
einhver geigur í okkur við þennan ógnvekjandi atburð. Vorum
við þó hálf forvitnar. Ákváðum því að fara til mömmu og biðja
hana að koma með okkur. Jú, mamma okkar blessuð var aldrei
löt. Hún kom með okkur, leiddi okkur sína við hvora hlið. Er við
vorum rétt komnar til dauðu hestanna, segir mamma: „Telpur
mínar, haldið ekki svona fast í hendurnar á mér“. Þá vorum við
ekki meiri hetjur en þetta. Báðar dauðhræddar þó við værum
þarna í skjóli mömmu.