Breiðfirðingur - 01.04.1982, Side 124
Sigurður Markússon
Tak hest þinn og sleða
i.
Snemma í janúar 1982 er ég á leið með lítilli flugvél frá
Reykjavík norður í land. Það er kyrrt veður og heiðskírt með
miklu frosti. Miðsvetrarsólin stendur lágt á lofti og því er hin
hvíta ásýnd landsins mörkuð löngum, dökkum skuggum. Ég sit
vinstra megin í vélinni, þar sem við fljúgum hátt í lofti hina
venjulegu flugleið upp Borgarfjörð með stefnu á Arnarvatns-
heiði. Með sérstakri athygli horfi ég vestur yfir fjöllin, sem skilja
á milli Borgarfjarðar og Dala, og í huga mér kvikna margs konar
endurminningar frá bernskuárum mínum í Dölunum. Ég
þykist sjá, að Hvammsfjörður muni ísi lagður, að minnsta kosti
út undir Staðarfell á Fellsströnd, ef til vill lengra.
Nú þykir það ekki lengur tíðindum sæta, þó að fjörðinn leggi,
en sú var tíðin, að ísalög á firðinum lokuðu einu aðdráttarleið-
inni, sem samgöngukerfi þeirra tíma bauð upp á frá hausti til
vors. Bílvegur yfír Bröttubrekku kemst að vísu í gagnið árið
1933, en sá vegur varð ófær í fyrstu snjóum og opnaðist ekki fyrr
en á vorin, þegar náttúran sjálf svipti af landinu því vetrarfargi,
sem mannshöndin og skóflan fengu lítt við ráðið.
En Dalamenn voru ekki á þeim buxunum að láta aðdrætti
niður falla, þó að fjallvegir tepptust og Hvammsfjörður legðist
undir klakabrynju. Þeir gerðu það, sem þeim þótti beinast við
liggja eins og á stóð: tóku hesta sína og sleða og héldu út á ísinn,
til móts við skipin, sem ætlað var að færa þeim björg í bú.
í huga mér vaknar þokukennd endurminning frá