Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 163
BREIÐFIRÐINGUR 161
söngfólkið allt áleiðis til Borgarness, en þar var hátíðarsamkoma
kl. 9 um kvöldið í Borgarneskirkju.
Þar sem kirkjukórarnir úr Dalasýslu áttu þess ekki kost að
vera með í Olafsvík, varð það að ráði, að stofnað var til annarrar
kristniboðshátíðar í prófastsdæminu. Var hún haldin 6.
desember í félagsheimilinu Dalabúð í Búðardal. Var hún með
svipuðu sniði og í Olafsvík, prófastur flutti ávarp, kirkjukórar í
Dalasýslu sungu, ýmist einir sér eða sameiginlega átta kórlög
undir stjórn organista sinna, en þeir voru: Halldór Þórðarson,
Lilja Sveinsdóttir og Kjartan Eggertsson. Nemendur úr
Tónlistarskóla Dalasýslu léku á þrjá trompeta og Melkorka
Benediktsdóttir Vígholtsstöðum, flutti Sólhjartarljóð
Matthíasar. Sr. Valdimar Hreiðarsson á Reykhólum flutti ræðu
dagsins, allir sungu sameiginlega „Kirkjan er oss kristnum
móðir“ og sr. Friðrik J. Hjartar í Búðardal flutti lokaorð og
síðan var þjóðsöngurinn sunginn.
Var þetta í heild sérlega eftirminnileg og ánægjuleg stund og
þökk sé þátttakendum öllum fyrir framlag þeirr, en mikið var á
sig lagt við allan undirbúning. Bar það vissulega fagran vott
þess, að enn á konungurinn Kristur rík ítök í hjörtum okkar
allra. Og það skulum við muna, að það samfélag, sem mótað er af
anda Guðs og fyllt er af þeirri gleði og þeim fögnuði, sem
gjarnan einkennir slíkt samfélag, það er byggt á bjargi, það
hrynur ekki, þótt stormarnir dynji á rás aldanna, það stenzt
andstæðar kenningar, árásir og mannlegt mótlæti, vegna þess,
að það byggir á eilífum boðskap og það nærist af eilífri forsjón,
guðlegri handleiðslu. Megi þjóð okkar varðveita þennan dýra
arf um alla framtíð.
Ingiberg J. Hannesson