Breiðfirðingur - 01.04.1982, Qupperneq 52
50 BREIÐFIRÐINGUR
Á víkingaöld byggði þjóð sú Suðureyjar er Keltar nefndu
Gall-Gaaels. Þetta var blendingsþjóð, komin af Keltum og
norrænum mönnum. Af þessari þjóð var Álfdís hin barreyska,
þriðji ættliður frá víkingi, en vafalítið keltnesk í móðurætt.
Keltnska ættin sem byggði Barra hét Macneil og var
ættarhöfðinginn kominn í beinan karllegg af írska konunginum
Njáli (Neil) hinna níu gísla, sem uppi var 379-405 og hefur sú
ætt verið tengd Barra æ síðan. Þeir reistu sér rambyggðan
kastala á kletti í flóa austan á eynni og heitir sá flói síðan Castle-
bay (Kastalaflói). Þessi kastali stendur enn, en er nú miklu
stærri en hann var upprunalega, því Macneil lét stækka hann og
byggja við hann turn á elleftu öld og síðustu tveir ættarhöfðingj-
arnir, Robert Lister Macneil og Iain Roderick Macneil, hafa
endurbætt kastalann mjög. í hlíðum Ben-Eoligarryfjalls, sem
veit að Barrasundi, standa enn legsteinar hjá rústum fornra kap-
ella. Þetta var legstaður Macneilættarinnar, en næstsíðasti ætt-
arhöfðinginn, Robert Lister Macneil, liggur í grafhýsi í kapellu
kastalans. Þegar ættarhöfðingi Macneilanna dvelst í kastalanum
blaktir fáni ættarinnar þar við hún og að loknum kvöldverði
heyrist kallað frá brjóstvörninni: Heyrið, þér menn, og hlustið,
þér þjóðir! Hinn mikli Macneil á Barra hefur matast og nú geta
þjóðhöfðingjar heimsins sest að snæðingi.
Castlebay er smáþorp með innan við 600 íbúa, en alls voru
íbúar Barra 1.159 árið 1971. Iðnaður er mjög lítill, þó er þar
verksmiðja sem framleiðir ilmvatn úr lyngi og hvað eftir annað
hefur verið reynt að koma þar á fót prjónastofum, með litlum
árangri. Aðalatvinnuvegur eyjaskeggja er því landbúanður, þ.e.
sauðfjárrækt á smábúum, og fiskiveiðar á sundunum umhverfís
eyna, en mestallur fiskurinn er seldur á meginlandinu. Bílaferja
frá Oban í Skotlandi kemur til Castlebay þrisvar í viku með
vörur og ferðamenn og flugfélagið Logan-Air sér um
flugsamgöngur tvisvar í viku.