Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 149
BREIÐFIRÐINGUR 147
Ég var send af stað að vita hvort ég fyndi hann ekki. Ég fór alla
leið inn að Þrælaskriðu. Varla sást fyrir götunni sem var bara
ruddur slóði í skriðuna á vorin þegar tímabært þótti, vegna
grjóthruns. Núna, svona snemma vors var ekki farið að huga að
því. Er ég stóð þarna við skriðusporðinn og litaðist um, sá ég för
eftir skaflajárnaðan hest í aurskriðunni svo auðséð var að hann
hafði farið í Höfðann þó ekki væri hann árennilegur. Nú var að
skella á myrkur og ég áræddi ekki lengra, snéri því heim og sagði
frá hestasporunum inn í Höfða. Heima voru sögð mörg orð um
skepnuna að fara að leggja í Höfðann hálf ófæran. Hesturinn
sem var á fullri gjöf, töðu og mat, og núna var enginn gróður
kominn sem teljandi væri. Afráðið var að senda mig næsta
morgun til að leita hans. Ég var elst af systkinum mínum og því
alltaf í smalamennsku og hestasókningum. Ævinlega var ég
klædd nankins samfesting, girt með ól eins og strákur. Ég var
með gúmmískó á fótum og alpahúfu á höfði og þótti nú ekki
beinlínis ganga kvenlega til fara.
Þennan minnisstæða morgun var ég snemma á fótum tilbúin í
leit að Hrotta, strokuhestinum. Þetta var fyrsta ferð hans til
heimahaganna á þessu vori. Mamma gaf mér bita áður en ég fór,
og bað mig að fara varlega í Höfðanum, hann væri vafalaust
slæmur. Ég setti bandbeislið yfír öxlina og skundaði af stað.
Þegar inn í Höfðann kom, var hann sem vænta mátti ófrýnilegur
og hlaut að vera illur yfirferðar, lausar skriður huldu víða
götuna, og þar sem gatan var auð var mikill aur. Uppi í
klettunum yfír höfði mér gargaði mávurinn. Heldur voru
klettarnir skuggalegir. Fyrir fótum mér var snarbrött skriðan
fram á Flugið sem sýndist frá götunni slúta fram yfir kolbláan
sjóinn með grænum sandi í botni langt út á haf. Hlíðar
Búlandshöfða eru ægibrattar og því er annað en gaman að verða
þar fótaskortur í vorleysingunum því þá gat allt farið af stað. I
miðri Þrælaskriðu fram á Fluginu er lítill grashóll, sem ásumrin