Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 75
73
BREIÐFIRÐINGUR
Ég festi ekki yndi í fjarlægri byggð,
því fast stóðu ræturnar heima.
Hún er ekkert grín þessi átthagatryggð,
né annað, sem tekst ekki að gleyma.
Ég vildi, er sálin mín svífur á braut,
að svolitla stund mætti ég dvelja
heima á Dröngum í lítilli laut
og ljósin á himninum telja.
Víst voru mér ljósin á himinhvolfinu undrunar og
aðdáunarefni. Engin rafljós drógu þá athyglina frá stjörnum og
tungli. Þau voru einu birtugjafarnir á dimmum vetrarkvöldum.
Þegar ég minnist Dranga, er ég kannski dálítið hlutdræg, en þó
ekki blind á það sem miður var. Koma mér þá helst í hug sunnan
ofsarokin. Sviftivindar komu ofan af Háskerðingnum svo
sterkir, að maður gat búizt við að bærinn færi með öllu, sem í
honum var. Hvítalogn var þess á milli. En er rokurnar komu,réri
bærinn, svo að hrikti í hverri fjöl. Þá sváfu ekki allir fast. Þó gátu
sumir sofið, og bættu óafvitandi við ömurleikann með hrotum,
er voru sem draugalegt undirspil.
Faðir minn átti áttæring, er Dvalinn hét. Eitt sinn var það í
sunnanroki, að allir bjuggust við að báturinn mundi fjúka. Þó
hafði verið borið á hann grjót, og hann bundinn niður með
hlekkjum. En ekki átti það fyrir honum að liggja, að sitja lengi í
festum, því þótt vængja og vélarlaus væri, hóf hann sig til flugs.
hann virðist hafa verið langt á undan sinni samtíð. En endirinn
var dapur, því hann fór í spón. Gæti því verið áminning til okkar
hinna, að hugsa ekki hærra en hugsa ber, og ofmeta ekki eigin
getu, en halda okkur við jörðina. Nú er Dvalinn minn dáinn,
sagði Stefán bróðir minn, er báturinn var fokinn.
Pabbi smíðaði alla sína báta sjálfur. Mér fannst gaman að