Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 154
152 BREIÐFIRÐINGUR
Hrotta fyrst í stað, var hann þungur í taumi. Við paufuðumst
þarna inn með hlíðinni, tóma vegleysu.
Þó að ég væri nú ánægð að vera með Hrotta í taumi gerði
sulturinn nú meir og meir vart við sig. Máttleysið í fótunum var
að ágerast, og fór ég nú alvarlega að hugsa um hvað ég gæti gert.
Eg vissi ekkert hvað klukkan var, en sá á öllum sólarmerkjum
að kvöld var komið. Eg vissi að foreldrar mínir þekktu fólk á
öllum bæjum þarna austanvert við Stöðina. Margt af þessu fólki
hafði komið að Mávahlíð og þegið góðgjörðir, en ég þorði ekki að
fara og berja á dyr. Eg braut heilann um þetta fram og aftur.
Jú, Þorbjörg á Kotum hafði komið í fyrrahaust, án erindis, og
var henni borið kaffi með kökum. Ætti ég að fara þangað og
segja að ég væri frá Mávahlíð og væri svo svöng. Eða, spyrja
hvað klukkan væri, og biðja að gefa mér að drekka. Það var
alvanalegt.
Eg lagði leið mína heim að bænum hennar Þorbjargar.
Bærinn hennar stóð á rimanum fyrir ofan Bryggjupláss. Allt var
þar snyrtilegt í kring. Eg barði aftur og aftur en enginn kom til
dyra. Blessuð gamla konan var ekki heima. Þá ákvað ég að fara
heim að Lárkoti. Guðrún, húsmóðirin þar hafði oft komið að
Mávahlíð. Nú var ég ákveðin í að fara þangað og biðja að gefa
mér að drekka. En það fór á sömu leið, enginn var heima.
Nú var áreiðanlega orðið nokkuð áliðið, og ég átti enn langa
leið ófarna heim. Nú fór ég á bak Hrotta, og var hann hvorki
latur eða kargur. Fór ég nú á hröðu brokki, og var ég sannarlega
fegin að geta hvílt mig á hestbakinu. Nú var aftur komið flóð í
Lárvaðal. Varð ég því að fara fyrir ofan, eintóma vegleysu fyrir
hestinn. Nú ákvað ég að fara heim að Skerðingsstöðum, og ef
mér yrði ekki boðið inn ætlaði ég að þrauka út að Búlandshöfða.
Þar átti ég vísan bita og sopa hjá vinum mínum, Astu og Agústi.
En það var bara svo langt. Við túnhliðið á Skerðingsstöðum stóð
Þorvaldur bóndi. Avarpaði hann mig, hressilega að vanda.