Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 79
BREIÐFIRÐINGUR
77
störfum, sem álitið var að tilheyrðu kvenþjóðinni. En hann lagði
vel til heimilisins, enda betra, svo oft og óvænt sem gesti bar að
garði. Þau voru samhent með það, foreldrar mínir, að gleðjast
yfir gestakomu. Jóla-skammturinn var svo stór, að enzt gat fram
á nýár, með öðrum mat. A aðfangadagskvöld fóru þeir, sem
komust til kirkju. Pabbi las húslestur úr bók Helga Hálfdánar-
sonar. Ég man hve allt breytti um svip, því það voru jól. Mér
fannst allt vafið töfraljóma. Snjórinn varð öðruvísi, kristallarnir
í honum urðu blárri, hvítari og skærari. Baðstofan breyttist í
höll. Allt hafði verið hvítskúrað með sandi, og klippt voru úr
dagblöðum lauf á allar hillur og syllur, og mamma hafði bakað
dásamlegar kökur. En það var ekki vegna alls þessa, að mér
fannst allt svo dýrðlegt. Nei, það var af því að það voru heilög
jól. A jóladagskvöld var farið að spila vist. Foreldrum mínum
þótti báðum gaman að því, og voru glöð. Mikið langaði mig þá
til að spila, en fullorðna fólkið varð náttúrlega að ganga fyrir. En
mér var boðin sú virðulega staða að sitja hjá mömmu og vera
henni til heilla. Mér fannst þetta ekki skemmtilegt, heldur
niðurlægjandi. Ég fann að ég stóð mörgum tröppum neðar að
virðingu í mannfélagsstiganum en þetta fólk, sem sat hlæjandi
við spilaborðið, sagði hálfa, grand, nóló, kastaði spilunum á
borðið, og lét smella í hnefunum um leið og það sagði alslemm.
En það voru jól, og ekki mátti fara í fýlu. Þetta endaði jafnan
með því, að ég sofnaði á verðinum, svo að ég hef víst ekki orðið
mikil heillastjarna fyrir mömmu. Spilað var langt fram á nótt.
Eitt sinn skeði það á jólum, að tvær systur mínar, vinnumaður
og vinnukona fóru til kirkju. A heimleiðinni lentu þau í blindbyl
og villtust. Ég held að þau hafi alltaf gengið í hring. Svo
rammvilltur var maðurinn, að honum fannst áin renna upp í
móti. Var mikil mildi, að þau fóru ekki út á ísinn, sem var
landfastur, því þá hefðu þau hæglega getað gengið fram af
skörinni. En heim komust þau um síðir, og þá mjög þrekuð.