Breiðfirðingur - 01.04.1982, Side 76
74
BREIÐFIRÐINGUR
fylgjast með aðferðum hans við bátasmíðina. Er hann hnoðaði
naglana að utan, urðum við krakkarnir að krjúpa inni í bátnum,
sem var á hvolfi, og halda við með hamri. Það var erfitt verk fyrir
mjóa handleggi. Einnig reyndi á kraftana að snúa hverfisteini, er
leggja þurfti á ljáinn.
Pabbi kallaði mig oft Góð-góð. Einhvern grun leggur nú að
mér, að ég hafi ekki alltaf borið það nafn með rentu. Þegar ég var
að sniglast í kring um hann við smíðarnar, sagði hann stundum:
Hvað segir hún Góð-góð, góð sem er svo rjóð-rjóð, um þig syng
ég ljóð-ljóð, lítil hringa slóð-slóð.
Nú tók pabbi til við að smíða sér annan áttæring, sem einnig
hlaut nafnið Dvalinn. Hann átti eftir að verða farsæll. Pabba
þótti vænt um bátana sína, því segja mátti, að þeir væru hans
annað heimili, því þótt hann byggi á landi, var hann kannski eins
mikið á sjó. Hann hafði með höndum fólksflutninga til
Stykkishólms, bæði úr Dölum og af Ströndinni. Á nýja bátnum
gat hann flutt, að mig minnir um fimmtíu sátur af hinni þungu
eyjatöðu. Þá var ekki mikið pláss fyrir farþega. Pabbi stýrði og
tveir réru á hvert borð. Stundum held ég að segl hafi verið látin
létta undir. Heyið varð að bera til skips, og í hlöðu fyrst framan
af. Þá smíðaði pabbi grind með afmörkuðu svæði fyrir hverja
sátu, ellefu talsins. Svo dró hestur þetta léttilega. Eftir að pabbi
var orðinn gamall, talaði hann stundum um að hann sæi í anda
litlu strákana, er þeir voru fyrst að bera sátur. Þá voru þeir ekki
stærri en það, að þeir hurfu, svo líkast var því að sátan gengi
sjálf. Oftast voru tveir vinnumenn allt árið, og ein vinnukona,
auk þriggja hálfsystra minna, sem unnu heimilinu af mikilli
prýði. Yngsta systirin ólst upp annars staðar frá átta ára aldri.
Eitthvað var einnig um kaupafólk. Við litlu krakkarnir fórum
snemma að snúast, því að allan vinnukraft þurfti að nýta. Eitt
atvik er mér minnisstætt í sambandi við það. Pabbi hafði heyjað
úti í svokölluðum Selflóa, og skyldi heyið reitt heim. Eg átti að