Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 74
72
BREIÐFIRÐINGUR
Legið var við í eyjunum meðan heyjað var, en komið heim um
helgar, og er sækja þurftir vistir. Stundum komu stúlkurnar
heim með visk af nokkuð grófu grasi, sem nefnist reyr. Hann
angaði undur vel og var geymdur í skúffum innan um sparifötin.
Þá var ekki til ilmvatn á hverjum bæ, eins og nú. Pabbi var mjög
framfarasinnaður, hann var með þeim fyrstu á ströndinni, sem
keypti ýmis tæki, svo sem hestvagn og herfí, fótstigna smiðju,
handsnúna þvottavél, einnig prjónavél, skilvindu, sem hét Alfa
Laval, og strokk af beztu gerð með stórum stálbelg. í smiðjunni
sinni smíðaði hann margt, sérstaklega man ég að mér þótti
gaman að horfa á hann smíða skeifurnar undir hestana.
Undarlegt að sjá járnið verða rauðglóandi og sveigjanlegt, og
hvernig hann sló göt fyrir hófnaglana með meitli á skeifurnar.
Mér finnst ég enn geta heyrt höggin hljóma frá steðjanum. Það
var hljómlist, kannski eina synfónían, sem ég hef skilið, eða
kannski notið, án þess að skilja.
Mörg kær minning er bundin Dröngum. Hún er elskuð og
geymd, en verður ekki lýst. Því ætti ég ekki að reyna að lýsa þeim
töfrum, en læt hér fylgja stef, sem gætu kannski túlkað, hvern
hug ég ber þangað.
HEIMA Á DRÖNGUM:
Heima á Dröngum er heilög jörð
þar heyri ég steinana tala.
Þar elska ég mýrar og moldarbörð
eins mikið og hvanngræna bala.
Ég faðma að mér klettinn og kyssi hann heitt
hann kyssir mig aftur á móti.
Vinátta okkar, hún er ekkert breytt,
ég elska hann, þótt sé hann úr grjóti.