Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 118
116
BREIÐFIRÐINGUR
hálfgerður rati að smala, enda Knarrarhafnarland sporadrjúgt.
Þó að ég mætti fá hest í smalamennskuna, borgaði það sig ekki,
því að þar sem var vondur vegur fór ég af baki og teymdi.
Ekki þótti kvenfólkinu gott verk að mjólka í kvíum. Það var
fremur erfitt og óhreinlegt verk. Kvíarnar voru hlaðnar úr torfi
og grjóti. Þegar ærnar voru reknar í kvíarnar, röðuðu þær eldri
sér með endilöngum veggjunum, hver þeirra átti sitt sæti og
stein í veggnum. Þar stóðu þær rólegar, jórtrandi með hálflukt
augun. En þær ungu áttu ekkert sæti eða stæði en reyndu að
raska röðinni eða hlaupa um, mjaltakonunni til armæðu. Oft var
blautt í kvíunum þó að þær væru mokaðar á hverjum degi. Til að
þekkja ærnar, sem búið var að mjólka hverju sinni, tók
mjaltakonan með fingrunum froðu úr fötunni og merkti þær.
Eftir að farið var að smala ánum rak ég þær á kvöldin úr
kvíunum áleiðis í haga. Þegar numið var staðar, krossaði ég yfir
hópinn og fór með þuluna:
„Farið þið nú heilar í haga, vaxi ykkur mör í maga og mjólk í
spena, komið þið svo heilar heim“. - Þetta var manni kennt.
Eitt af vorverkunum, sem tók sinn tíma var ullarþvotturinn.
Þegar ullin var tekin af fénu, var henni troðið í strigapoka. Nú
voru þeir teknir, settir upp á reiðingshest og hesturinn teymdur
út að Hafnará. Við ána voru hlóðir og yfir þeim stór pottur, sem
þvæluvatnið var hitað í (en það var vatn og keyta, sem borin var
heimanað í stórum tréfötum, með vatnsgrind). Meis var hafður
á hliðinni á hálfum pottinum. Upp.í meisinn var ullin færð til að
láta renna af henni, þegar búið var að þvæla hana og hræra með
priki í sjóðheitu þvælinu. Vatn var haft í fötu og þvælan undin
þar upp úr áður en sú tók við, er þvoði í vatninu. Þegar ég var á
tólfta árinu þvoði ég í vatninu, en Imba, gömul kona, þvældi.
Mér þótti vænt um hvað hún hafði þvælurnar litlar, þá var
hægra að hemja þær í vatninu. Ullin var kreist og skoluð í kalda
vatninu þangað til það rann hreint af henni, þá var henni kastað