Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 161
Á kristniboðsári
Árið 1981 minntist kirkjan þess, að þá voru liðin þúsund ár frá
því fyrstu kristniboðarnir hófu hér kristniboð, þeir Þorvaldur
víðförli Koðránsson og Friðrik biskup af Saxlandi.
Hinn dýri dómur, orðið heilaga hefur verið boðað með þessari
þjóð í þúsund ár. Orð Guðs hefur hljómað meðal landsmanna
við mismunandi aðstæður og lífskjör, í litlum ranni fram til dala
og út við strönd, í erli og striti dagsins, hvort sem í hlut áttu
kotungar eða höfðingjar, valdamenn eða undirsátar, frjálsir
menn eða undirokaðir, - lausnarorðið hefur borist frá manni til
manns og kveikt líf og fögnuð, vonir og þrár í brjóstum
mannanna.
Auðvitað hefur það verið mikið átak og tímafrekt, að koma því
inn hjá ribböldum og bardagamönnum, að betra væri að
fyrirgefa en hefna, og við sjáum það mæta vel meðrás sögunnar
næstu aldirnar í huga, er við lítum á Sturlungaöld og vopnaskak
landsmanna og ófrið manna á milli, að grundvallarboðskapur
kristindómsins um kærleika og frið manna á meðal hefur ekki
alltaf átt upp á pallborðið hjá ríkjandi valdahópum.
En allt um það var kenningin við lýði - og þeir voru
áreiðanlega margir, sem bundu von sína og lífstrú við styrk og
kraft fagnaðarboðskaparins og litu þangað um afl og tiltrú,
þegar allt annað brást í baráttu og kúgun aldanna, og það er
alveg áreiðanlegt, að í myrkri og fátækt, baráttu og erfiðri
lífsafkomu og í glímunni við náttúruöflin, þá hefur ljós Krists
náð að skína inn í mannlega sál og tekist að kveikja þar lífsvonir
og trú á mátt og styrk á erfiðum stundum.