Breiðfirðingur - 01.04.1982, Blaðsíða 138
136 BREIÐFIRÐINGUR
Hólmfríður var myndarleg kona, vel greind, hæglát og
fremur hlédræg, var ekki allra eins og sagt er, gat verið föst fyrir
en ræðin og skemmtileg meðal vina, hjálpsöm og í eðli sínu
félagslynd, enda starfaði hún lengi í kvenfélagi sveitarinnar og
var raunar ein af stofnendum þess.
Hún var gestrisin, og þau hjón bæði, - og gaman að staldra við
á heimili þeirra - njóta þar góðs atlætis og ræða við þau um líf
hversdagsins og viðburði og mannlíf fyrri tíðar. Það var
ómetanlegt að komast þannig í snertingu við líf og lífsviðhorf
gamla tímans og auka þannig við ylgeisla lífsins ljósleiftrum,
sem varpa birtu yfir löngu gleymda og horfna tíma í ys og þys
nútímalífsins.
Hólmfríður var trygg vinum sínum, verk sín bar hún ekki á
torg, í hljóðlátri tilbeiðslu ævistritsins lagði hún sitt af mörkum
til þess, að líf og samfélag mætti verða sem traustast og bezt og
henni sjálfri og vinum hennar til gæfu og Guðs blessunar. Hún
var ein af þessum traustu og trúu konum, sem vissi, að Guð gaf
henni þetta líf til þess, að það yrði látið bera ávöxt í trúmennsku
og kærleika, hún var hljóðlát húsfreyja, sem gegndi störfum
sínum af þeirri gleði og lífsfyllingu, sem fylgir því að skila sínu
verki vel og samvizkusamlega. Hólmfríður lézt í Sjúkrahúsinu í
Stykkishólmi á 94. aldursári og var jarðsett í Hjarðarholti 3.
október 1981.