Tímarit Máls og menningar - 01.09.2009, Blaðsíða 133
T í m i n n l í ð u r e k k i
TMM 2009 · 3 133
Maður segir svo margt á ævinni, og síðan máist allt út sem maður hefur
sagt, það er ekki lengur neitt. Þetta er það sem ég vildi heyra í tónlist
vindsins, í gný bílanna sem óku um götur borgarinnar með þennan
rauða ljóshjúp yfir okkur eins og við hefðum lent í miðjum norðurljós-
unum. Að segja við stelpu eins og í kvikmyndunum: „Ég elska þig. Ástin
mín.“ Að kyssa hana, snerta brjóst hennar, sofa hjá henni uppi í hæð-
unum undir gnauði vindsins, ilmi furutrjánna, suði moskítóflugunnar,
skynja mjúka húð hennar, heyra hvernig andardráttur hennar verður
rámur eins og henni væri illt. Þegar strákur eyðir nótt með stelpu, er það
þá ekki þetta sem á að gerast? En ég skalf, ég náði ekki einu sinni að tala
lengur. Hún spurði: „Er þér kalt?“ Hún tók utan um mig og þrýsti mér
að sér. „Eigum við að kyssast?“ Varir hennar snertu mínar og ég reyndi
að gera eins og hún hafði gert uppi á hæðinni, með tungunni. Allt í einu
ýtti hún mér harkalega frá sér. Hún sagði: „Ég geri það sem ég vil.“ Hún
reis á fætur, gekk fram á þakbrúnina með handleggina út til hliðanna
eins og hún ætlaði að hefja sig til flugs. Vindurinn reif í föt hennar og
hár. Rauð birtan myndaði einkennilegan geislabaug í kringum líkama
hennar. Ég hélt að hún væri brjáluð en það hræddi mig ekki lengur. Ég
elskaði hana. Zobéide kom tilbaka og kúrði sig upp að mér. Hún sagði:
„Ég ætla að sofa. Ég er svo þreytt, svo þreytt.“ Ég skalf ekki lengur. Hún
bætti við: „Þrýstu mér fast að þér.“
Ég svaf ekki. Ég horfði á nóttina snúast. Rauðri birtunni sló enn á
himininn, það sást varla stjarna. Það var annað sem snerist og hreyfðist.
Borgin bergmálaði eins og autt hús. Zobéide svaf fast. Hún hafði falið
andlitið í olnbogabótinni og ég skynjaði þunga hennar á lærinu. Hún
rumskaði ekki, ekki einu sinni þegar ég færði höfuð hennar á saman-
brotinn jakkann minn og fór út á hinn enda þaksins til að pissa út í
tómið, undir vindgnauði skorsteinanna.
Í dagrenningu vaknaði hún. Mig verkjaði alls staðar, eins og ég hefði
verið laminn. Við skildum án þess að kveðja. Þegar ég kom heim höfðu
foreldrar mínir ekkert sofið. Ég hlustaði á ávítur þeirra og lagðist
alklæddur í rúmið. Ég var veikur í þrjá daga. Eftir það sá ég Zobéide
ekki framar. Jafnvel nafnið hennar var horfið af póstkassanum.
Núna er hvert sumar sem nálgast, tómið eitt, því næst ömurlegt. Tím-
inn líður ekki. Ég geng endalaust um göturnar að fylgja eftir skugga
Zobéide til að reyna að komast að leyndarmáli hennar, heim að dyrum
blokkarinnar sem heitir svo fráleitu og dapurlegu nafni, Happy days.
Allt þetta fjarlægist en samt sem áður fær það hjarta mitt til að slá örar.
Mér tókst ekki að halda í hana, skilja hvað var á seyði, skynja hætturnar
sem lágu í leyni fyrir henni, eltu hana. Ég hafði tíma, ekkert skipti máli.
TMM_3_2009.indd 133 8/21/09 11:45:38 AM