Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 28
M a t t h í a s J o h a n n e s s e n
28 TMM 2009 · 4
eigin reynslu eins og annað í þessu sérstæða verki, sem fjallar einnig
öðrum þræði um afbrýðisemina. Og hvernig hún holar okkur innan.
Umfjöllun Prousts um ástina er sérstæð, eftirminnileg með öðrum
hætti en venjulega. Það eru einhverjir óskilgreindir fyrirvarar á ástinni
sem eru ekki sízt minnisstæðir.
Proust sagði að bækur væru stór kirkjugarður, þar sem ekki væri hægt
að lesa á fjölda legsteina. Og listin væri samþjöppuð minning, sérhver
maður væri þannig skáldsagnahöfundur, án bókar.
Ég þekki engan höfund sem minnir á Proust, hvað stílfegurð viðkem-
ur, nema Canetti. Hann skrifaði fallegustu þýzku sem ég þekki.
Hef einnig verið að lesa tvær bækur um Proust, eftir Edmund White
og de Botton. Skemmtilegar og fróðlegar bækur, de Botton segir t.a.m.
frá því þegar þeir Joyce og Proust hittust í París á þriðja áratugnum og
fór fátt á milli þeirra. Joyce spurði Proust, hvort hann hefði lesið Ulysses
sem kom út 1922. Non, sagði Proust. Sem sagt, non-samtal, sagði
Joyce …
19. september 1999, sunnudagur
… Horfði í nótt á boxeinvígi í veltivigt milli Oscars de la Hoya og Titos
Trinidad frá Puerto Rico. Sá fyrri er af mexíkönsku ætterni en ég held
hann sé Kani, hinn síðari er frá Purerto Rico og talar eingöngu spænsku.
De la Hoya er kallaður „gulldrengurinn“. En nú fór illa fyrir honum,
hann tapaði á stigum eftir tólf lotur. Ómar Ragnarsson og Bubbi Mort-
hens héldu báðir eins og ég að de la Hoya hefði unnið. En annað varð
uppi á teningnum. De la Hoya sýndi miklu meiri tilburði. Hann er létt-
ur og lipur og eldsnöggur. Trinidad er aftur á móti miklu þungstígari.
Hann er staður og bíður eftir að slá þung högg. Hann stóð sig ekki nógu
vel fyrra helming einvígisins, en sótti í sig veðrið undir lokin. Ég held
hann hafi unnið síðustu loturnar, því að de la Hoya var augsýnilega orð-
inn mjög þreyttur. Það hefur líklega ráðið úrslitum. Mér fannst gott það
sem de la Hoya sagði eftir einvígið, að hann væri sár innra með sér, það
væri rétt, en hann hefði langað til að sýna box, þess vegna hefði hann
leikið sér með þeim hætti sem raun ber vitni. Hann er geðþekkur piltur
að því er virðist, en þó eitthvað dekraður. Hann á sér stóran aðdáenda-
hóp, en eyjarskeggjarnir stóðu bakvið Trinidad. Hann er ekki ógeðfelld-
ur piltur, fastur fyrir og einarður, en mér þykir hinn miklu skemmtilegri
boxari.
Ég fór ekki að sofa fyrr en undir morgun. Beið eftir þessari atlögu og
horfði á hana til enda. Hvers vegna eiginlega, ég skil það ekki sjálfur! Ég
hef enga samúð með boxurunum því þeir fá milljónir fyrir hvern bar-
TMM_4_2009.indd 28 11/5/09 10:12:58 AM