Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 116
D ó m a r u m b æ k u r
116 TMM 2009 · 4
Um leið og þau horfast í augu verður til ástand. /…/ Ástand sem átti eftir að þéttast
sífellt allar þeirra stundir. Áform sem enn hafa ekki fengið orð og fengu sum aldrei
svo mikið sem hugsun. Líf sem átti eftir að flögra. Fræ sem urðu til. Ég ligg í loftinu
og þau brosa bæði (99).
Í frásögnina blandast einnig sagnaheimur Skáldísar, móðurömmu hans, sem er
sýndur í skemmtilegri hnotskurn í sögunni. Og lífsskoðun Skáldísar er í sam-
ræmi við sögur hennar:
Því að amma leit á ástina eins og marxistar og frjálshyggjumenn líta á þjóð-
félagsþróunina. Rétt niðurstaða var óhjákvæmileg vegna þess að hin óhjákvæmilega
niðurstaða var rétt (116).
Beinteinn, maður hennar, skynjar hins vegar þegar í stað að í þessu tilviki ná
„Indriði og Sigríður“ ekki saman, heldur hefur spjátrungurinn að sunnan
unnið hug og hjarta dóttur þeirra. Því Beinteinn hefur það jarðsamband og
innsæi sem Skáldísi skortir. Hann er skáld þessa húss sem hann hefur reist og
innréttað með eigin höndum.
Hann hafði ort það. Um öll herbergin lá fínofið net tilfinninga, atvika og hugrenn-
inga – og í hvert sinn sem stríkkaði á því fann hann það í hjarta sér (117).
Hetjudáð myndarlega sveitapiltsins, sem í sögum Skáldísar lyftir hulunni frá
augum stúlkunnar og vekur heitar tilfinningar hennar í hans garð, hefur ekki
önnur áhrif en að greiða henni leiðina burt.
Ástin læðist út eftir dalnum og á eftir henni mæna stráin og tittlingarnir, fífur
og fíflar, lóur hrista örlítið hausinn en brosa í gogginn, öldurnar ýfast í ánni, sjálf
vindáttin snýst og blærinn ýtir mjúklega á eftir þeim, allt teygir sig af megni í áttina
suður þangað sem ástin læðist (123).
Undirtitill skáldsögunnar er Saga af ástum. Hún fjallar um hverfulleika lífsins.
Og hún fjallar um kærleikann, tengslin á milli manna, ást foreldra og barna,
karls og konu. Meginefnið er ástarsaga foreldranna, sem reynist vera undir-
tónn í öllum fyrri hlutanum, og hún er sýnd í margs konar speglum í hinum
síðari. Þar má nefna náttúrurómantíkina, skáldsagnaheim ömmunnar og heim
dægurlagatextanna, auk atvikalýsingarinnar sjálfrar. En engin af þessum
draumamyndum rætist. Það er fyrst alveg í lokin að nöturleg saga þessarar litlu
fjölskyldu raðast endanlega saman. Það gerist í bréfi föðurins þar sem hann
lýsir bæði hamingju þeirra í upphafi og horfist í augu við sjálfseyðilegginguna
og sína „miklu sök“. Og um leið fullkomnast myndin af örlögum móðurinnar
sem blandast saman við slitróttar minningar sögumanns úr bernsku.
Gluggar skelltust. Hurðir skelltust. Golan varð að stormi sem þyrlaði upp ryki og
smán, gnauðaði á glugga og ýlfraði við dyr. Fótatak barst frá berum iljum. Og söngl.
Stundum raulaði hún hásum rómi frammi á nóttunni á meðan við biðum þess að
veðrinu slotaði og pabbi kæmi heim (144).
TMM_4_2009.indd 116 11/4/09 5:44:44 PM