Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 92
92 TMM 2009 · 4
Jóhann Þórsson
Messuvín og myrkur
Hann strýkur upp eftir læri konunnar á meðan hann bíður eftir að hún
segi eitthvað. Í herberginu er myrkur, tunglsljós lýsir upp snjóinn og
fjallið í fjarska en kemst ekki inn um gluggann. Herbergið er lítið, ekk-
ert nema rúm sem brakar í og skápur, fullur af fötunum hennar. Hún
tekur um höndina og stoppar hann.
„Þú kitlar mig.“
Hann dregur höndina að sér, eins og hann sé skyndilega feiminn.
„Hvað gera annars prestar sem hætta að trúa?“ spyr hann.
Kuldinn er kominn yfir hann, læddist rólega að honum en nú er ekki
hægt að hunsa hann lengur. Þórður teygir sig í sængina, tekur hana upp
af gólfinu og leggur yfir sig. Heldur kuldanum frá. Hylur nektina.
„Prestar sem hætta að trúa? Eru þeir ekki eins og skipstjórar sem ekki
finna fisk?“
Hún snýr sér að honum, þessum manni sem liggur stundum hjá
henni. Hann er með meira skegg núna en í hin skiptin. Í myrkrinu er allt
svarthvítt, þó ekkert alveg svart og ekkert alveg hvítt. Þúsund útgáfur af
gráu. Augu hans eru dökk, næstum svört, andlitið ljósgrátt og hárið
einlitt í myrkrinu, ljósleysið dylur gráu hárin.
„Nei. Það er ekki alveg rétt líking,“ leiðréttir hún. „Meira eins og
íþróttamaður sem er ekki í formi. Kannski.“
„Og ef ég segði þér að ég væri að missa trúna? Myndirðu segja mér að
hætta? Fyndist þér rangt af mér að predika áfram?“
„Nei,“ segir hún. „Ef þú hættir þá ferðu eitthvað annað, ferð frá
mér.“
Hann snýr sér frá henni og horfir á gólfið. Á gólfinu, upp við vegginn,
er búið að stilla upp mynd af Jesú. Hann stendur við klettabrún í eyði-
mörk og við hlið hans er skuggi í formi manns. Í myrkrinu virðist Jesús
ekki síður vera úr skugga en hvíslarinn við hlið hans. Þórður horfir á
myndina og hugsar um daga Jesú í eyðimörkinni, um freistingar. Ætli
TMM_4_2009.indd 92 11/4/09 5:44:42 PM