Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 135
D ó m a r u m b æ k u r
TMM 2009 · 4 135
mynd fyrir það hvernig hugsjónir spillast, og hvernig óraunsæjar áætlanir
draga dilk á eftir sér. Þess má geta að stríðsrekstri vindur fram í bakgrunni
sögunnar, væntanlega í Írak og/eða Afganistan, en þannig er skírskotað til
annars konar „inngrips“ sem einnig var á sínum tíma reynt að réttlæta út frá
mannúðarsjónarmiðum. Takmörk eru að sjálfsögðu fyrir því hversu langt er
hægt að ganga með hliðarstæður af þessu tagi, en engin tilviljun er að sögu-
maður greinir alltaf öðru hverju frá fréttaflutningi af framgangi stríðs „í fjar-
lægu landi“ (38), minnt er á að heimurinn bókstaflega logar í illdeilum og
samgangur milli menningarheimanna er oft og tíðum þyrnum stráður.
Sunna byggir eigin brú milli menningarheima þótt ekki sé jafn „langt“ farið
og í tilviki Arndísar. Hún eignast spænskan kærasta, Jordy, en áður hafði fram
komið að faðir hennar er spænskur, hún er afrakstur einnar nætur gamans
milli hans og móður sinnar sem aldrei hefur til Spánar komið, og Sunna hefur
aldrei þekkt föður sinn. Dvöl hennar í Barcelona er því undirbyggð af illskil-
greinanlegri löngun til að nálgast „föðurarf“ sinn, en líkt og faðir hennar stakk
móður hennar af, yfirgefur hún Jordy án skýringa, og nagar sú ákvörðun hana
enn tíu árum síðar. Hér skapast þó annars konar tengsl við Fatímu, og raunar
þau mikilvægustu. Líkt og Fatíma verður Sunna ófrísk en ólíkt henni á Sunna
sér „auðvelda“ útgönguleið. Hún flýgur til Íslands í fóstureyðingu, jafnar sig í
nokkrar vikur og snýr svo aftur til Barcelona eins og ekkert hafi í skorist.
Söguþróun þessi er gjörólík þeirri röð hörmunga sem þungun Fatímu reynist
hafa í för með sér, og segja má að þarna birtist „raunsæi peninganna“ skýrum
dráttum. Á ferðum sínum um Reykjavík í nútíð sögunnar uppgötvar Sunna að
hún er aftur orðin ólétt og má þannig segja að ákveðnum hring sé lokað. Þetta
þematíska skírskotunarkerfi reynist síðan tengjast sjálfum konungi saka-
málasagnanna, Valgarði Jónssyni, á óvæntan hátt. Í ljós kemur að ein af ástæð-
um þess að Sunna hefur hálft í hvoru forðast hann síðan þau voru saman í skóla
er að hún stal frá honum rúmfötum eftir nótt eina sem þau hálfpartinn eyddu
saman. Ástæðan var blettur eftir tíðablóð sem Sunna skammaðist sín fyrir.
Þegar þau hittast aftur á námskeiðinu þessum áratug síðar spyr Valgarður eftir
rúmfötunum, og þeim er í kjölfarið skilað. Auk þess að vera eini „glæpurinn“
sem í raun er leystur í verkinu mynda rúmfötin og tíðablóðið sérstakan vett-
vang sem að sumu leyti virðist sameina vangaveltur sögunnar um barneignir,
fóstureyðingar og blóði drifin örlög Fatímu.
Býsna hryllileg saga sem Jordy segir Sunnu síðasta kvöldið sem þau eru
saman í Barcelona gegnir sömuleiðis táknrænu hlutverki í verkinu. Hann leið-
ir hana að frægu kennileiti í borgarlandslaginu, húsi sem eitt sinn var vett-
vangur fyrir skelfilega röð glæpa. „Svona hryllingi er best að gleyma“ (174)
segir Sunna að sögunni lokinni en Jordy svarar neitandi, „glæpirnir meg[a]
aldrei gleymast. Fórnarlömbin skiptir það engu máli hvort þau voru drepin
fyrir sekúndubroti eða hundrað árum. Glæpurinn er það sem eftir stendur“
(174). Þarna birtist að mörgu leyti „aðferðafræði“ sakamálasögunnar sem sögð
er í Vetrarsól. Eina lausnin sem að lokum er í boði er viðnámið sem felst í því
að gleyma ekki. Þegar Sunna spyr nokkru síðar hvort Jordy haldi að svona
TMM_4_2009.indd 135 11/4/09 5:44:46 PM