Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 124
D ó m a r u m b æ k u r
124 TMM 2009 · 4
fjarlægu menningarrými við hið sínálæga umhverfi sem íslenskir lesendur
bókarinnar þekkja svo mætavel.6 Nýjasta skáldsaga Auðar, Vetrarsól, á þetta
sameiginlegt með Öðru lífi. Í nýju bókinni verður sögusviðið einnig til úr sam-
blandi hins hnattræna og hins staðbundna, hið útlenda setur úr jafnvægi
venjubundinn veruleika Íslendingsins og skilningsleysi og fumkennd sam-
skipti andspænis því sem er framandi birtast hér líkt og í Öðru lífi. Í Vetrarsól
tekst þó ólíkt betur til og sýnin á skörun menningarheima, hætturnar og kost-
ina sem henni fylgja, er skýrari.
2.
Vetrarsól segir af hinni hæglátu og eilítið feimnu Sunnu, konu um þrítugt sem
starfar á bókaforlagi, og sem hefur að sumu leyti siglt lífi sínu í strand. „Núna
átti barnið að vera komið. Núna átti rétta vinnan að vera fundin. Núna átti ég
að hafa uppgötvað rétta staðinn í lífinu“ (93), hugsar hún á einum stað og lýsir
þannig bæði væntingum sínum og vonbrigðum. Metnaðurinn sem eitt sinn
dreif hana áfram hefur smám saman slokknað, eða verið ruggað í svefn af
þeirri röð tilfallandi afleysingar- og íhlaupastarfa er henni hafa verið fengin ár
eftir ár á forlaginu, án þess að hún nokkurn tíma höndli þann frama innanhúss
sem hún þráir, eða að skáldadraumarnir sem móðir hennar er sannfærð um að
knosi sálina verði að veruleika (250). Langvarandi þunglyndi virðist reyndar
ráða hér nokkru um, sjálfsmyndin er ótraust (Sunna er manneskja sem „líður
áfram en óttast allt“, 122) og ekki bætir úr skák að efasemdir um samband
hennar við hinn myndarlega Axel vakna í framrás sögunnar. Þau Axel hafa
verið saman um árabil en þegar sagan hefst situr Sunna hálfpartinn uppi með
son hans, hinn geðuga og hálfstálpaða Helga sem er í heimsókn frá Danmörku,
meðan faðirinn er veðurtepptur vestur á fjörðum í viðskiptaerindum. Fjár-
hagsáhyggjur gera þeim erfitt fyrir og á þeim ber Axel ábyrgð. Hann er bjart-
sýnismaður sem þó virðist ekki skilja fyllilega þau veruleikatengdu atriði sem
greiða þarf úr svo að hægt sé að hrinda draumum í framkvæmd. Það sem hér
vekur þó mesta athygli er söguvettvangurinn, bókaforlagið, og þær skírskot-
anir sem fylgja honum. Það er líkt og verkið vilji vekja athygli á uppruna sínum
og áþreifanlegri hlið skáldskaparins. Til að hnykkja enn frekar á þunga svið-
setningarinnar er aðalvertíð allra forlaga, jólin, um það bil að skella á. Hinar
miklu annir sem fylgja þessum uppgripsmánuði reynast ein af mörgum flækj-
um sem herja á líf Sunnu í sögunni. Tímarammi bókarinnar er þessu sam-
kvæmt býsna þéttur og skilmerkilega framsettur. Enda þótt súkkilaðijóladaga-
talsins sem svo skemmtilega yljar lesanda á fyrstu síðum bókarinnar njóti ekki
við þegar fram í sækir er auðvelt að fylgjast með framrás tímans því kaflar bera
heiti mánaðardaga og tímatalning af ýmsu tagi reynist miðlægur þáttur. Því
mætti jafnvel halda fram að hugmyndin um tíma, og þá ekki síst liðnar stund-
ir og minningar, sé hér í lykilhlutverki, eins og lesandi sér reyndar holdgerast í
manninum með klukkuna, ógæfumanni sem ráfar stundum inn á forlagið með
tifandi klukku í tösku og Sunna annast af mikilli þolinmæði.
TMM_4_2009.indd 124 11/4/09 5:44:45 PM