Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 65
B a k v i ð f o s s i n n
TMM 2009 · 4 65
Nokkrum klukkustundum síðar situr maðurinn boginn yfir kapli.
Hann hefur drukkið einum of marga kaffibolla og líður ekki sem best.
Í maganum er hnútur, hugsunin slitrótt og hröð þegar viðskiptavinur
hringir bjöllunni.
Maðurinn slengir hendinni á hnappinn í hugsunarleysi. Hann réttir
svo úr sér og fylgist með hópi manna koma inn í sjoppuna. Þeir virða
hann ekki viðlits, ganga beint að kæliskápnum sem geymir áfengu
drykkina. Þeir eru fullir, tala hátt og maðurinn grettir sig.
Það er einmitt þá sem hann sér stúlkuna. Hún kemur stuttu á eftir
hjörðinni og stillir sér upp við dyrnar. Hún er ung, hárið sítt og gyllt og
maðurinn hugsar um hland, um eitthvað sem rennur strítt og blautt,
gosbrunn, foss. Hún sér hann ekki. Æpir eitthvað á ungu mennina,
röddin rám og orðin útbíuð, kjánaleg. Talar einhverja mállýsku sem
hann skilur ekki, drukkið unglingamál. Fötin hennar eru ódýr, efnis-
lítil og sjúskuð. Maðurinn getur ekki haft af henni augun. Hann fyllist
fyrirlitningu og eitt sekúndubrot kemur dóttir hans upp í hugann, sting-
ur kollinum uppúr djúpinu og hverfur jafnfljótt þangað niður aftur.
Þegar stúlkan hefur sleppt setningunni sem hann skildi ekki, afmynd-
ast andlitið á henni, úr maskaraklíningnum skín einhver hryllingur sem
engum er ætlaður. Svo fer hún út og hurðin skellist á eftir henni.
Ungu mennirnir borga fyrir bjórinn, biðja um sígarettur. Sjáöldrin
eru þanin og vöðvarnir í andlitinu strekktir. Þeir eru að tala um eitthvað
meðan maðurinn afgreiðir þá. Einn þeirra áttar sig á því að stelpan er
ekki lengur með þeim, æsir sig við vini sína, hreytir út úr sér einhverju
um að helvítis tussan sé stungin af.
Þegar þeir eru búnir að borga hraða þeir sér út og maðurinn stendur
eftir í glerboxinu, fylgist með planinu fyrir utan. Þar er stelpan. Hún er
að væflast eitthvað um og einn mannanna hrifsar hana til sín. Dempuð
högghljóð heyrast, óp sem deyr út og þá eru þau horfin.
Í sjoppunni er flóðlýsingin og suðið frá kæliskápunum. Maðurinn
sest aftur í keng. Hann hugsar til þess að hann muni aldrei sjá þetta fólk
aftur, að hann hafi ekkert að segja um örlög þess, að ógæfa stelpunnar
sé ekki á hans ábyrgð.
Hann sér fyrir sér myrkvað greni, dópdrasl og umbúðir og framandi
tónlist, heim þar sem alltaf er sama nóttin og aldrei birtir, hann ímynd-
ar sér þennan heim og að fólkið búi í honum, um hann fer ónotakennd,
óöryggi.
Hann sér fyrir sér íbúðina sína, vana sinn og finnst hann standa á
sandhrúgu sem stöðugt hrynur úr, fæturnir sparka sandinum ósjálfrátt
til hliðanna og dýpst innra með sér veit maðurinn að ekkert er öruggt.
TMM_4_2009.indd 65 11/4/09 5:44:39 PM