Tímarit Máls og menningar - 01.11.2009, Blaðsíða 90
Þ o r s t e i n n A n t o n s s o n
90 TMM 2009 · 4
Á þessum árum las Elías prófarkir fyrir Helgafellsútgáfu. Stundum með
engum fyrirvara. Hann var þekktur meðal höfunda og annarra mennta-
manna fyrir færni sína í að taka á sig ham textahöfundar við lesturinn
og þar með gegnumlýsa textann, afhjúpa veilur hans og agnúa í þágu
höfundarins. Ekki var þá alltaf spurt um greiðslur fyrr en að verkslok-
um. Um það bil áratugur var liðinn síðan Ragnar skrifaði upphafsbréf
þessarar samantektar þegar þar kom að Elías ritaði eftirfarandi bréf, það
síðasta frá honum til Ragnars sem varðveitt er í bréfasöfnum þeirra.
Elías hefur þegar hér var komið verið að rita kauplaust og á eigin vegum
ævisögu vinar síns Þórðar Sigtryggssonar (1960–65) sem enn hefur ekki
komið út á prenti:
Ragnar minn góður!
Ertu alveg búinn að gleyma mér, ertu eitthvað fornermaður út í mig, eða ertu
bara svona illa staddur – eins og ég? Hvað kemur til, að þú hvorki hringir í mig
né svarar línum, sem ég sendi þér?
Ég veit þetta er alltsaman mjög erfitt, a.m.k. öðrum þræði. Það er erfitt þegar
maður les skattaseðilinn sinn og þessháttar, og eins þegar við lesum leiðinlega
hluti í dagblöðunum. Ja, þá er lífið erfitt, maður minn! Samt megum við ekki
gleyma einu: að til er afskaplega mikið af góðri list, í ýmsum myndum, og menn
eru alltaf að framleiða góða list hér og hvar í heiminum. Þetta er mjög gleðilegt,
og maður gleymir öllum skattskýrslum, „Vettvöngum“, „Austrum“ og hvað það
allt heitir þegar maður hlustar á góða tónlist; sama hvað þetta er pent skrifað eða
fyndið. Þess vegna skulum við láta liggja vel á okkur og ekki vera fornermeraðir
nema í hófi. Í rauninni er þetta nefnilega alls ekkert erfitt.
Sannleikurinn er þó sá, að ég hef dálítið velt því fyrir mér, hvort þú værir
eitthvað móðgaður út í mig. Hef ég kannski sent þér reikninginn á eitthvað um
of „ópersónulegan“ og „kuldalegan“ hátt? Var reikningurinn eitthvað vitlaus frá
minni hendi? Eða átti ég kannski aldrei að senda neinn reikning? Ég hef velt
þessu fyrir mér, en ekki komizt að niðurstöðu. Kannski þú haldir, að mig muni
ekkert um að láta þetta dragast. Kannski ertu líka alveg peningalaus, rétt eins og
ég, og það finnst mér nú sennilegast af þessu öllu. Við verðum að þola slíkt, sem
stöndum blýfast á einstaklingsframtakinu okkar, ég tala nú ekki um ef við eigum
hugsjón, einsog t.d. þá að skrifa bók eða forleggja bók, sem hvort tveggja er jafn
brjálað og öldungis óafsakanlegt á okkar köldu tímum.
Ef þú nú ekkert lætur frá þér heyra, þá veit ég satt að segja ekki, hvað ég á að
taka til bragðs. Ég get víst ekki mikið gert. Ef þú vilt láta sem ég sé ekki til, þá biðst
ég afsökunar á því, að ég skuli vita, að þú ert til. Bezt væri þá að við vissum hvor-
ugur af hinum. En það væri reyndar eitt af þessu erfiða að gleyma slíku, jafnvel á
meðan maður hlustaði á góða tónlist.
Sem sagt: Þú átt næsta leik, og ert reyndar búinn að eiga hann lengi. Ef þú vilt
við séum skildir að skiptum, þá biðst ég afsökunar á því, sem ég kann að hafa gert
á hluta þinn og jafnframt á því, sem ég kann að hafa sagt vel um þig.
Með kveðju (Sign.)
TMM_4_2009.indd 90 11/4/09 5:44:42 PM