Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Page 10
G u ð n i E l í s s o n
10 TMM 2011 · 4
heildarlosun koltvísýrings haldist innan 450 ppm markanna, þótt slíkt sé
nauðsynlegt eigi hlýnunin ekki að fara yfir 2°C. Siðfræðingurinn Clive
Hamilton telur að stefnumótendur hafi í raun sæst á þetta svo snemma
sem árið 2005. David King, ráðgjafi breskra stjórnvalda, lýsti því yfir í
september 2005 að 450 ppm markið væri „pólitískt óraunhæft“. Sama
skoðun var sett fram af hagfræðingnum Nicholas Stern sem árið 2006
skrifaði í frægri skýrslu sinni að alþjóðasamfélagið ætti fremur að horfa
til 550 ppm sem efri marka. Eins og Hamilton hefur réttilega bent á er
nú þegar svo stutt í 450 ppm mörkin að hagsmunaaðilar og kjósendur
munu aldrei taka í mál að gangast inn á þær ströngu aðhaldsaðgerðir
sem óhjákvæmlega felast í 450 ppm viðmiðinu.7 Því er nánast útséð um
að hægt verði að stemma stigu við hlýnuninni nálægt þeim mörkum
jafnvel þótt þau geti engan veginn talist vistfræðilega ásættanleg. Sé
ekki farið í róttækar aðgerðir á allra næstu árum verður sífellt erfiðara
að snúa af þeirri braut sem þegar hefur verið mörkuð með aðgerðaleysi
ráðamanna og almennings.
Loftslagsumræðan er gríðarlega flókin. Þar er í einni bendu ólíkur
hugsunarháttur og tjáningarmáti vísinda, stjórnmála og markaðar. Af
leiðingin er sú að skilaboðin til almennings verða afskaplega misvísandi.
Hér er að finna eina skýringuna á því hvers vegna vísindasamfélaginu
hefur gengið svo illa að koma vandanum til skila. Lítið hefur miðað í
rétta átt á síðasta áratug og sums staðar beinlínis orðið afturför. Svo
dæmi sé tekið hefur þeim Bandaríkjamönnum sem trúa fréttum af
hlýnun jarðar fækkað á undanförnum fimm árum, en þeir voru 79% árið
2006 en aðeins 59% á síðasta ári.8 Ekki bætir úr skák að valdamiklum
hagsmunaöflum í viðskiptalífinu er mikið í mun að koma í veg fyrir að
farið verði út í aðgerðir sem ógnað geti stöðu þeirra, t.d. á orkumörk
uðum heimsins. Umtalsverðum fjármunum hefur verið varið í að draga
vísindalegar niðurstöður í efa og eru slíkar aðgerðir dyggilega studdar af
einstaklingum yst á hægri kanti stjórnmálanna sem berjast gegn hvers
kyns takmarkandi stjórnvaldsaðgerðum á sviði loftslagsmála, þar sem
þær myndu líklega leiða til aukinna ríkisafskipta.9 Almenningur á líka
afskaplega erfitt með að gera sér í hugarlund umhverfisvanda sem smám
saman safnast upp og hefur fyrst sýnilegar afleiðingar löngu eftir að
lífríkinu hefur verið stofnað í hættu með aðgerða og fyrirhyggjuleysi.
Áhættumat samfélaga byggist ekki alltaf á röklegum forsendum eins og
ítrekað hefur verið sýnt fram á.10
Síðast en ekki síst má ekki gera of lítið úr stundarhagsmunum sem
ýta iðulega langtímasjónarmiðum úr vegi. Í samfélagi þar sem orkusóun
er til marks um auð og velgengni getur verið erfitt fyrir almenning