Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Qupperneq 43
TMM 2011 · 4 43
Njörður P. Njarðvík
Mín klukka, klukkan þín,
kallar oss heim til sín
Íslandsklukkan, sjálfstæði og framtíð
Haustið 1974 vorum við hjónin stödd í Tblisi í Grúsíu og boðið í ökuferð
upp í fjöll að skoða einhverja elstu kirkju sem vitað er um, frá annarri
öld, og heyrðist þaðan ómur klukku út yfir dalverpið. Þar var dálítið
veitingahús og snæddum við þar hádegisverð. Við næsta borð sat lítill
hópur ungs fólks. Þegar það frétti hvaðan við vorum, reis upp snarlegur
piltur, lyfti hvítvínsglasi og bað okkur að skála við sig fyrir Jóni Hregg
viðssyni. Hann sagðist hafa mætur á þeim manni er berðist í senn gegn
ranglæti og réttlæti. Og ég varð orðlaus. Að hitta fyrir hljóm fornrar
klukku og Jón Hreggviðsson hátt uppi í Kákasusfjöllum, var satt að
segja nokkuð óvænt. Og vissi ég þó að Jón hafði hlaupið yfir lönd, hið
harða Ísland og hið mjúka Holland.
Sú var tíð, segir í bókum, að íslenska þjóðin átti aðeins eina sameign sem metin
varð til fjár. Það var klukka. Þessi klukka hékk fyrir gafli Lögréttuhússins á
Þíngvöllum við Öxará, fest við bjálka uppí kverkinni. Henni var hríngt til dóma
og á undan aftökum. Svo var klukkan forn að einginn vissi leingur aldur hennar
með sannindum. En um það er sagan hefst var laungu kominn brestur í þessa
klukku og elstu menn þóttust muna hljóm hennar skærari. Samt undu gamlir
menn enn þessari klukku. Að viðstöddum landfógeta, lögmanni og böðli, og
manni sem átti að höggva og konu sem átti að drekkja, mátti oft á kyrrum degi
um jónsmessubil í andvara af Súlum og kjarrlykt úr Bláskógum heyra óm klukk
unnar blandinn niði Öxarár.
Þannig hefst Íslandsklukkan, fyrsta bindi þrísögunnar, sem höfundur
hennar hafði lengi beðið guðina að forða sér frá að skrifa, enda átti hún
sér langan aðdraganda. Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn hafði
bent Halldóri á sögu Jóns Hreggviðssonar 1924 og hans langa stríð gegn
ranglæti og réttlæti er stóð í liðlega 30 ár. 1934 semur hann stutt yfirlit
yfir söguna í heild og gefur henni heitið Kristsbóndinn. Að hausti 1942