Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Side 69
A r f l e i f ð m á r a n s
TMM 2011 · 4 69
þessu tilfelli voru kristnir norðanmenn augljóslega hinir aðvífandi „bar
barar“ sem ógnuðu staðbundinni hámenningu.
Sjálfsmynd Evrópu inniheldur stóra skammta af nýlenduhyggju.
Hluti af henni er íslamófóbían sem vestræn heimsvaldastefna notar nú
sem aldrei fyrr til að knýja yfirgang sinn. Moskan í Kordóvu er þögult
vitni um gullið tækifæri sem hin kristna Evrópa fékk og misnotaði. Það
hvort hún gengst við hinum máríska arfi er góður mælikvarði á það
hvort hún hyggst snúa blaðinu við.
Márar og endurreisnin í Evrópu
Á hátindi frægðar sinnar var Kordóva langstærsta borg í vestanverðri
Evrópu. Talið er að íbúafjöldinn um árið 1000 hafi verið á bilinu 250
til 500 þúsund, en á sama tíma voru t.d. París og London smábæir með
innan við tíu þúsund íbúa hvor. Þegar best lét voru moskur í Kordóvu
um 1600 talsins, en Moskan mikla stærst og virðulegust, og hefur lifað
lengst. Tengd henni voru íslamskur háskóli og mikið bókasafn. Þangað
komu námsmenn víða að, einnig úr hinni kristnu Evrópu, og settust við
fótskör lærimeistara úr hópi múslima og gyðinga – og jafnvel kristinna.
Sylvester II, sitjandi páfi er kristni var lögtekin á Íslandi, hafði lært í
Kordóvu, m.a. stærðfræði og stjörnufræði og kunni arabísku. Talið er að
bókasafnið hafi seint á 10. öld átt um 600.000 rit eða u.þ.b. 1000 sinnum
fleiri titla en nokkurt annað bókasafn Evrópu.
Borgin Toledo, sem Kastilíumenn náðu af márum árið 1085, var
glæsilegasta setur mennta og menningar í landinu að Kordóvu undan
skilinni. Eins og aðrar borgir mára var hún mótsstaður hinna þriggja
trúarbragða landsins sem lifðu að mestu í frjóu samlyndi. Múslimar
af rómönsku ætterni voru þar í meirihluta. Eftir að borgin féll undir
Kastílíu varð hún helsta miðstöð landsins í stríðinu fyrir „endurheimt“
Íberíuskagans. Engu að síður var hún áfram mikil miðstöð mennta
og gott sambýli trúarsamfélaganna hélst áfram. Alfonso XI konungur
Kastilíu kappkostaði að halda múslimum (meirihluta borgarbúa) og
gyðingum í borginni eftir hertöku hennar og bauð þeim ýmis fríðindi.
Fall Toledo breytti sögu Evrópu. Hinum ríku bókasöfnum máranna
þar var ekki spillt. Smám saman breyttist menntasamfélag borgarinnar
– tengt háskóla og dómkirkju – í þýðingamiðstöð þar sem þýtt var yfir á
latínu, seinna einnig kastilísku og frönsku. Þetta varð langmikilvægasta
miðstöð fyrir miðlun á grískum og arabískum lærdómi til Evrópu
landa, einkum á sviði heimspeki og vísinda. Til dæmis voru öll helstu
verk Platóns og Aristótelesar þýdd úr arabísku á latínu á 12. og 13. öld,