Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Síða 81
A r f l e i f ð m á r a n s
TMM 2011 · 4 81
frumstæð í samanburðinum. Menningarþyrst fólk í nágrannalöndum
mára hlaut að sækja þangað fyrirmyndir. Miklu meiri útskýringa væri
þörf ef slíkt hefði ekki gerst.
Arfleifð mára á Íslandi
Áður hefur verið ritað um arabísk áhrif á íslenskan miðaldaskáldskap.
Það gerði Guðrún Lange í Skírnisgrein 1992. Hún telur áhrifin býsna
óbein og fremur hugmyndaleg en beinlínis bókmenntaleg. Hina hof
mannlegu ást eða „andlegu ást“ sem þá varð tíska í Evrópu vill hún
einkum skýra með arabískplatónskum hugmyndum sem hafi síast
inn í álfuna gegnum krossferðir og einnig um máraríkið. Platónsk ást,
þar sem elskendurnir ná ekki að sameinast nema á andlegu plani, fann
fótfestu innan íslams jafnt sem kristni og örvaði til bókmenntaafreka.
Þannig má, segir Guðrún, lesa t.d. Kormáks sögu sem veraldlega
allegóríu um leit mannsins að æðra marki með hjálp andlegrar ástar
(„Andleg ást. Arabískplatónsk áhrif og „integumentum“ í íslenskum
fornbókmenntum?“, Skírnir, vor 1992).
Dæmi um nokkuð bein arabísk áhrif eru þó til: í þýðingu sem birtist
í Hauksbók úr ritinu Diciplina Clericalis eftir gyðinginn Petrus Alfonsi
sem var frá márísku Andalúsíu en fór síðan til Aragóníu og tók kristni
árið 1106. Ritið er austrænt ævintýra og dæmisagnasafn, þýtt úr
arabísku og persnesku m.m. (ferðir Sindbaðs eru þar á meðal þótt þær
hafi ekki ratað í Hauksbók). Sveinbjörn Rafnsson hefur sýnt fram á að
talsverð áhrif þaðan megi finna í íslenskum fornsögum, m.a. Eglu, og
yngri ævintýrum („Sagnastef í íslenskri menningarsögu“, Saga 1992).
Veruleg áhrif frá márum á Íslendinga gátu varla orðið öðruvísi en
óbein. Sem áður sagði voru hinir hofmannlegu tískustraumar hluti af
hringbylgju með upphafspunkt í Andalúsíu. En slíkir straumar flæddu
öðruvísi í þá daga en nú. Talað orð og sungið barst munnlega frá manni
til manns, ellegar í þýðingum og afskriftum sem einnig gengu frá manni
til manns. Þessir straumar hlutu því að taka lit af þeim svæðum sem þeir
fóru yfir, ekki síst af bókmenntalegu umhverfi og hefðum sem þar voru
fyrir. Af því straumurinn frá Andalúsíu fór yfir Frakkland tók hann
þar í sig nýja liti og tóna áður en hann streymdi áfram. Þaðan fór hann
fremur sem sagnakvæði og sögur en sem lýrík.
Þannig náði bylgjan til Norðurlanda og Íslands snemma á 12. öld.
Í Noregi og á Íslandi voru þýddar og endursagðar riddarasögur úr
suðrænu (mest frönsku) umhverfi, með ástina sem helsta viðfangsefni.
Sömuleiðis komu hingað þjóðvísur og sagnadansar (e. ballads) úr