Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Síða 99
Á r a m ó t a s k a u p i ð o g a ð r a r ó s p e k t i r u m á r a m ó t
TMM 2011 · 4 99
öðrum tímum er snúið á hvolf og gert skoplegt. Skaupið beinir fyrst og
fremst sínum spjótum að þeim sem valdið hafa hverju sinni, hvort sem
um er að ræða stjórnmálamenn, „frægt“ fólk eða þá sem á einhvern hátt
standa upp úr fjöldanum. Í skaupinu er oft hæðst að því sem alla jafna
er tekið hátíðlega í þjóðlífinu og nýtur almennrar virðingar. Í gegnum
tíðina hefur grínið til dæmis oft beinst að gamla bændasamfélaginu,
Þingvallahátíðum, æðri listum og svo framvegis. Í skaupum síðustu
ára er þetta þema ekki síður áberandi og má nefna að í skaupinu 2007
beindist til dæmis grínið að álfatrú Íslendinga. Skaupið hefst á atriði í
flugvél þar sem þýsk hjón skiptast á skoðunum um hvort svokallaðir
álfasteinar séu venjulegt grjót eða ekki, en slíkt grjót höfðu hjónin
einmitt keypt í verslun á Íslandi. Í könnun sem gerð var árin 2006
og 2007 kom fram að meira en helmingur íslensku þjóðarinnar telur
mögulegt, líklegt eða öruggt að álfar séu raunverulegir (Gunnell, 2007).
Þessari trú flíka menn líklegast ekki hversdags en þrátt fyrir það þykir
sjálfsagt að segja útlendingum frá þessari trú og má jafnvel halda því
fram að álfatrú hafi verið markaðssett fyrir ferðamenn og dæmi eru um
að erlendir ferðamenn komi hingað beinlínis með það fyrir augum að
kynnast álfatrú Íslendinga. Trú á álfa eða aðrar vættir þykir ekki hæfa
vel upplýstu fólki og bókmenntir þar sem söguhetjur láta tilfinningar
sínar óspart og opið í ljós njóta ekki þeirrar virðingar sem áður var
(Oring, 2003). En þrátt fyrir það að ekki þyki lengur við hæfi að setja
á bók lýsingar á miklum tilfinningum hefur fólk samt sem áður til
finningar og þeirra farvegur getur til dæmis verið húmor af ýmsu tagi.
Ýmsar tilfinningar fólks fá útrás í húmor eða skemmtiefni yfirleitt og er
skaupið dæmi um þessa útrás tilfinninga sem annars eru bældar.
Dagsdaglega vilja Íslendingar ekki gera lítið úr því sem oft er kallað
„menningararfur“ þjóðarinnar. Á hátíðastundum koma Íslendingar
saman á Þingvöllum, heiðra minningu forfeðranna og hlusta á valdhafa
flytja ræður. En þegar kemur að áramótaskaupinu er gert grín að þessum
sömu valdhöfum og hátíðunum sem nokkrum mánuðum áður voru
fjölmennar á Þingvöllum. Sú tilfinningasemi og virðing sem flestir bera
fyrir hinum sögufræga stað víkur fyrir gríninu. Það er nefnilega ekki
bara reiði og hatur sem fá útrás í gríninu heldur líka tilfinningasemi sem
á vissum tímabilum snýst upp í andhverfu sína (Oring, 2003).
Í skaupinu 2009 sást fjallkonan hlekkjuð á vegg eftir mikið sam
kvæmi á Bessastöðum sem greinilega hafði farið úr böndunum. Fjall
konan er flestum Íslendingum heilagt tákn fyrir þjóðina, frelsið, fjöllin,
íslenskar konur og mæður yfirleitt. Bessastaðir eru helsta höfuðból
landsins, aðsetur forseta landsins. Skaupið verður hér sérlega „karní