Tímarit Máls og menningar - 01.11.2011, Side 102
102 TMM 2011 · 4
Heimir Pálsson
Nóbelsskáldið Tomas
Tranströmer
Þegar aðalritari Sænsku akademíunnar, Peter Englund, tilkynnti að
Nóbelsverðlaun í bókmenntum þetta ár væru veitt sænska ljóðskáldinu
Tomas Tranströmer, laust hópur fréttamanna og sérstakra áhugamanna
um Nóbelsverðlaunin, sem jafnan hefur safnast saman úti fyrir dyrum
Akademíunnar af þessu tilefni, upp fagnaðarópi. Það er ekki venja og
hefur alls ekki gerst undanfarin ár. Skýringarnar sem maður hefur lesið
í dagblöðum eru ýmsar:
Tomas Tranströmer er ekki aðeins frábært ljóðskáld heldur einnig
elskað skáld. Mönnum hefur lengi verið ljóst að hann er tvímælalaust
einn þeirra sem eiga óumdeilt sæti innarlega á Bragabekk.
Í öðru lagi, og það snerist ekki um þægilegar minningar, fannst
greinlega mörgum að álögum væri létt af sænskum bókmenntum. Síðast
þegar Nóbelsverðlaun í bókmenntum féllu í hlut sænskum skáldum
voru það höfundarnir Eyvind Johnsson og Harry Martinson. Árið var
1974 og gagnrýnin varð skelfileg. Ekki var aðeins um að ræða sænsk
skáld heldur sátu báðir höfundarnir í Akademíunni. Vinstrisinnaðir
höfundar, sem voru eins konar samviska alheimsins við hlið Olofs
Palme, ráku upp ramakvein og er skemmst frá því að segja að menn
eru samdóma um að þetta hafi valdið því að Harry Martinson stytti sér
aldur árið 1978. Ekki eru talsmenn samvisku alheimsins alveg þagnaðir
enn því að hinn háværasti þeirra, Jan Guillou, hefur í útvarpi kallað það
hneyksli að veita Tranströmer verðlaunin af því hann sé Svíi, sjálfsagt
ágætt skáld, en aldrei muni Jan lesa eftir hann kvæði, né annarra manna
óskiljanlegar bókmenntir (þ.e.a.s. ljóð).
Í þriðja lagi má að sjálfsögðu benda á að í allmörg ár hafa ljóðskáld
ekki hlotið Nóbelsverðlaun; skáldsögur, smásögur og leikrit hafa fremur
átt upp á pallborðið hjá Nóbelsnefndinni.
Tomas Tranströmer er engan veginn dæmigert skáld af sinni kynslóð.