Tímarit Máls og menningar - 01.02.2016, Blaðsíða 8
G u ð r ú n N o r d a l
8 TMM 2016 · 1
til Brynjólfur Sveinsson færði Danakonungi hana að gjöf. Skinnhandritin
eru nefnilega viðkvæm, þau þola ekki eld, sagga né vatn. Aðstæður á Íslandi
voru ekki hagfelldar skinnbókum, en samt varðveittust þær ekki aðeins eina
kynslóð, heldur mann fram af manni, raunar oft í kvenlegg, öld fram af öld.
Saga handritanna sjálfra er eiginlega dramatískari og leyndardómsfyllri en
sjálf sköpunarsaga þeirra sem er reyndar oftast ókunn. Átta hundruð sextíu
og átta handrit eða handritabrot á íslensku, auk fornskjala, hafa varðveist
frá því fyrir 1600.5 Það er eiginlega kraftaverk. Torfbæirnir voru ekki góðir
varðveislustaðir, jafnvel ekki sjálfir biskupsstólarnir. Í Skálholti urðu tíðir
brunar og bókasöfnin fuðruðu upp, og latínuhandrit klaustranna hafa nær
öll glatast. Engu að síður varðveittist fjöldi handrita þrátt fyrir andstyggðar
veðurfar, plágur, hallæri og hinna löngu síðmiðaldir – allt til sautjándu
aldar. Þá vakti Arngrímur lærði athygli á því í varnarritum fyrir Ísland að
sjálfar heimildirnar um fornsögu Norðurlanda væru geymdar á norðurhjara
veraldar – og áhuginn vaknaði í Danmörku og Svíþjóð á að ná handritunum
úr landi. Þá sögu þarf ekki að rekja hér – né að rekja þá ástríðufullu ritun á
pappír sem hélt áfram í landinu allt þar til prentaðar bækur tóku alfarið við.
Þegar Ísland varð sjálfstætt ríki hófst baráttan fyrir auðlindunum og settu
Íslendingar strax á oddinn forræði yfir handritunum í söfnum Dana og
hafssvæðinu umhverfis landið. Handritamálið í Danmörku er raunar ein
samfelld spennusaga í ætt við House of cards og myndi sóma sér vel í sjón-
varpsseríu.6 Mikil áhersla var af hálfu Íslendinga lögð á að fá handritin heim,
og var koma þeirra stórviðburður á síðasta vetrardag árið 1971. Aðeins ári
síðar var landhelgin færð út í 50 mílur og 200 mílur árið 1975. Forræði yfir
menningarlegum og efnahagslegum auðlindum var í höfn.
Við erum ekki fátæk þjóð með þessar auðlindir, fyrir utan allar þær nátt-
úruauðlindir sem landið færir okkur og þann auð sem býr í hverjum manni.
En hvernig höfum við ávaxtað okkar pund? Íslendingar hafa markvisst
fjárfest í rannsóknum og nýsköpun á hafinu og fiskistofnum og bylting
hefur orðið í nýtingu sjávarfangs á síðustu árum, þó að deilt sé um aðgang
að auðlindinni og skiptingu arðsins af henni. En fyrir tilstilli háskólarann-
sókna, nýsköpunar, nýrrar tækni og öflugrar alþjóðlegrar samvinnu hefur
tekist að vinna miklu meiri verðmæti úr hverjum fiski en áður var. Orðið
hafa til ný og öflug rannsóknar- og nýsköpunarfyrirtæki eins og Marel
og Matís, og keðja sprotafyrirtækja um allt land. En höfum við verið jafn
stefnuföst í nýtingu á þeim auðlindum sem búa í safni Árna og öllum þeim
heimildum, handritum, skjölum, upptökum og myndum sem varðveitt eru í
öðrum söfnum okkar? Héldum við að sigurinn væri unninn þegar handritin
komu heim? Gleymdum við að það þarf líka „að vinna friðinn“?
Frá því að síðustu handritin komu heim frá Danmörku árið 1997 hafa
orðið aldamót og ný iðn- og upplýsingabylting gerbreytt rannsóknaaðferðum
og möguleikum til miðlunar og samskipta við útlönd. Í raun eru þessar
breytingar ævintýri líkastar fyrir litla þjóð á hjara veraldar. Sú auðlind sem