Tímarit Máls og menningar - 01.02.2016, Blaðsíða 30
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
30 TMM 2016 · 1
Þá fór ég að kynna mér myndlistarmenn sem unnu með texta eins og ég sjálf
gerði innan myndlistar í um áratug. Það voru til dæmis Jenny Holzer og
Barbara Kruger í Bandaríkjunum, Lawrence Weiner, Joseph Kosuth, Richard
Prince, Ilya Kabakov, allt listamenn sem unnu á ólíkan hátt með orð, tungu-
mál og texta innan ramma myndlistar. Á þessum árum uppgötvaði ég líka
belgíska listamanninn Marcel Broodthaers en í honum kom margt saman
sem ég heillaðist af, rómantík nítjándu aldarinnar, áhrif frá súrrealisma og
dada og hugmyndalist tuttugustu aldarinnar. Í skólanum í Hollandi og á
tíunda áratugnum skoðaði ég mikið og velti fyrir mér sjónrænum mögu-
leikum tungumálsins og setti fram textaverk á margvíslegan hátt. Þá las ég
dálítið eftir Roland Barthes og fleiri franska fræðimenn og heimspekinga,
eftir Juliu Kristevu og Susan Sontag og fleiri.
Ég myndi þó ekki endilega nefna listamenn sem voru efst á baugi á þessum
árum sem mína helstu áhrifavalda í dag, heldur myndi ég telja upp langan
lista af rithöfundum. Í dag er ég til dæmis spennt fyrir Kate Atkinsson,
hún er fjölhæfur höfundur sem tengist sterkt sínum samtíma, hristir upp í
forminu en skrifar líka spennusögur. Og svo mætti nefna fleiri og fleiri.
Er öðruvísi að vera rithöfundur af kvenkyni en af karlkyni? Hver er mun
ur inn á stöðu karl og kvenhöfunda?
Já, munurinn liggur strax í uppeldisaðferðunum sem viðhafðar eru og í
öllum þeim almennu gildum sem samfélagið hefur komið sér saman um að
einkenni konur. Þær væntingar sem samfélagið gerir til kvenna valda því
kannski að þær skrifa á annan hátt en væru þær karlar og hefðu alist upp við
kröfur sem gerðar eru til drengja. Mýtan um karlkynssnillinginn lifir enn
góðu lífi.
Hefurðu orðið vör við að hægst hafi á endurnýjuninni í rithöfundastétt?
Geturðu ímyndað þér hvað valdi?
Mér finnst koma fram á ári hverju nýir og áhugaverðir höfundar, ljóðskáld
og skáldsagnahöfundar, en ég hef ekki áttað mig á því hvort þeir sem koma
fram á sjónarsviðið nú séu fleiri eða færri en fyrir tíu árum. En ástandið
á útgáfumarkaði og sú staðreynd að forlög leggja upp laupana hlýtur að
hafa áhrif á möguleika yngri höfunda. Á móti koma þættir á borð við rit-
listardeildina í Háskóla Íslands sem hvetja og hlúa að nýjum höfundum.
Hver er annars staða íslenskra bókmennta í dag?
Þegar er talað um stöðu bókmennta þá er oft sagt að staðan sé góð af því
íslenskir höfundar eru þýddir á mörg tungumál. Ég held að staðan sé góð
á meðan íslenskir höfundar takast á við samtíma sinn og sögu á einhvern
máta sem skiptir okkur hér máli sem manneskjur. Mér finnst mikilvægt að
höfundar skrifi fyrir sitt eigið samfélag og móti það og skapi um leið. Það