Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Page 7
S k a u t a f e r ð m e ð s k á l d i
TMM 2017 · 1 7
þegar ég var unglingur í tilefni af útkomu á nýju ljóðasafni sem nota átti til
kennslu. (Hann var ákaflega stilltur og ég varð hálffeimin við hann). Stefán
Hörður Grímsson bjó í öryrkjablokkinni þar sem ég vann við þrif í skólafríi.
(Hann gekk á furðulega þykkbotna skóm og keypti Ís-kóla í búðinni á neðstu
hæðinni.) Sigfús Daðason var prófdómari einhverju sinni þegar ég þurfti að
taka munnlegt próf í frönsku í Háskóla Íslands. (Sagnbeygingarnar runnu
upp úr mér við það eitt að verða fyrir íhugulu augnaráði hans.)
En sem sagt, mig langaði til að hitta Hannes undir því yfirskini að fá hann
til að árita eintakið mitt af Ljóðasafninu. Í raun langaði mig samt aðallega
til að sjá hann í návígi. Ég ímyndaði mér hann ákaflega fámálan. Það er svo
skáldlegt að þegja. Fremst í Lágt muldur þrumunnar standa fáein orð um
Hannes, fæðingarárið, hvað hann hefur gefið út margar bækur og loks: „…
bjó lengi í Noregi, býr nú á Akranesi.“ Akranes er iðnaðarbær hinum megin
við flóann. Hægt var að taka ferju frá Reykjavíkurhöfn og sigla þangað á
klukkutíma. Komutímar í Reykjavíkurhöfn miðuðust við kaffitíma starfs-
manna hjá Ríkisskipum. Farþegar gátu gengið óhræddir um bryggjuna því
þá voru lyftarakarlarnir í kaffi.
Þetta hefði getað verið sáraeinföld ferð. Samt fór ég aldrei.
Sjómannsblóðið ristir ekki dýpra í mér en svo að ég get ekki stigið yfir
poll án þess að verða sjóveik og svo var ég einfaldlega bara feimin. Hvað átti
ég með að fara að trufla svona merkilegan mann? Hvað ímyndaði ég mér að
myndi gerast? Að ég fengi almennilegan slurk af skáldamiðinum við að taka
í höndina á honum? Að minnsta kosti fór ég aldrei og dag nokkurn í ágúst
bárust fréttir af andláti hans.
Enn skauta ég samt á eftir Hannesi. Og einn daginn þegar ég var að blaða
í bókunum hans rakst ég á Sprek á eldinn frá 1961. Þar er ljóð sem heitir Ætt-
jarðarkvæði. Í Höggstað, ljóðabók minni frá árinu 2000, er ljóð sem heitir
Ættjarðarljóð. Ekki nóg með að titillinn sé næstum sá sami, heldur er þetta
líka fyrsta ljóðið í báðum bókum. Ég fann ýmist til stolts eða botnlausrar
skammar við þessa uppgötvun. Á maður ekki að vera meðvitaðri um áhrifa-
valda sína en þetta? Svo var ég líka löngu búin að gleyma hvers vegna ég hef
aldrei punkta í ljóðunum mínum en sé að þann sið hef ég hirt frá Hannesi.
Hver segir líka að ljóðið endi þar sem skáldið segir skilið við það? Það heldur
áfram að yrkjast í höfði lesandans rétt eins og ljóðið Til Sunnu konu minnar:
…
Og verðum ekki framar skilin að:
Við erum eitt. Þú lifir
í mér. Við líðum enn um þögul svið
ótölulegra bústaða okkar og fylgsna
Nær fjörutíu ár
fylgi ég þér enn!
Eins og þú fylgir mér um bleika jörð
þar til yfir lýkur