Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Side 12
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
12 TMM 2017 · 1
Frábært.
Ísland utan Reykjavíkur er óskilgreint ævintýrasvæði í huga mér, drauma-
land þar sem allt getur gerst. Ég þyrfti bráðum að fara sem túristi í hringferð
og kynnast landinu betur.
Viltu segja mér af bernskustöðvunum í Hlíðunum – landslaginu – þegar
þú lítur um öxl og lítur ekki um öxl því Hlíðarnar eru jú þarna enn?
Það er skrítið, en hvað slíkar bernskuminningar snertir á ég auðveldara
með að laða fram stuttar, brotakenndar myndir; brest í trjágrein á votu
malbiki þegar arkað er um götur í svörtum gúmmístígvélum; syfjaða störu
úr strætóskýli á myrkum vetrarmorgni og klístrað hljóðið frá dekkjum
farartækjanna sem þeytast hjá; stækjuna sem gýs upp úr eldhúspottinum
hennar ömmu þegar ég lít til hennar í heimsókn og hún er mér til
ólýsanlegrar skelfingar að sjóða lunda.
Þetta eru stutt leiftur úr einhvers konar prívat veröld, tilfinningaástand.
Nú sé ég fólk arka glaðbeitt um Hlíðarnar klyfjað bakpokum, rýnandi í
landakort. Hvað búist þið við að finna hér? hugsa ég. Sjálfsagt vonast þau til
að amma bjóði þeim í heimsókn og beri á borð soðinn lunda.
Mhm og þeir stýfi lunda úr hnefa. Við sitjum á veitingahúsi í Kínahverfinu
í New York – þú býrð í borginni. Viltu lýsa fyrir mér landslagi núverandi
dvalarstaðar?
Ég hef búið á þriðja ár í Bedstuy í Brooklyn, þar á undan vorum við í
Queens. Bedstuy er mjög sérstakt og skemmtilegt hverfi, undirstaðan svo-
kölluð brúnsteinshús, dæmigerð New York-stemning, langar götur skreyttar
háum trjám, víður sjóndeildarhringur, birtan í borginni er svo sérstök, gyllt
og glitrandi, mjög ólík íslenskri glannabirtu, sem orkar oft hálf áttavillt á
mig.
Hér eru kastalar og aðrar skrítnar og tignarlegar byggingar sem sleikja
himininn, dularfullir turnar, ýmsar krúsídúllur í skreytingum frá þeim
tíma þegar mannkynið leyfði enn fagurkeraeðlinu að trompa hagkvæmu
eins leitnina.
Að mér skilst bjó hér í upphafi 20. aldar margt tiltölulega efnað fólk, meðal
annars frá Bretlandseyjum, en lét sig svo hverfa í kjölfar heimskreppunnar
1929, þá flæddi hingað fátækara fólk frá Manhattan, úr yfirfullu Harlem, og
Bedstuy breyttist smátt og smátt í hálfgert gettó. Hús dröbbuðust niður; víða
poppuðu upp krakkbæli, einkum á níunda og tíunda áratugnum; bandarískir
vinir fullyrða að skyni bornar verur hafi ekki hætt sér til Bedstuy um langt
árabil í öðrum erindagjörðum en að kaupa sér hugvíkkandi lyf. Þegar ég
rölti um hverfið gleður nasirnar oft ljúf maríúanalykt í bland við kaffi- og
kleinuhringjailm – mjög notalegt. Sumir leigubílstjórar skirrast við að aka
manni hingað: You go to Bedstuy to die. Spike Lee-myndin Do the Right
Thing gerist hér.