Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Qupperneq 14
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
14 TMM 2017 · 1
Manstu fyrstu minninguna?
Já, ég man fyrstu minninguna og ég er meira að segja búinn að skrifa hana
niður, ætla að nota hana seinna í sögu.
Viltu þá ekki segja frá henni?
Jú, það skal ég gera – ég held ég sé fjögurra og hálfs árs gamall, hún gerist
úti í garði – þetta er fyrsta sumarminningin – í Engihlíð tíu þar sem ég ólst
upp frá átta mánaða aldri og er að spila fótbolta við pabba. Ég er nýlega búinn
að eiga afmæli, klæddur í AC Milan fótboltabúning og glænýja takkaskó og
ég er í marki og í æðislegum fötum og útbúnaði og staðan er fjögur fjögur,
pabbi er með boltann. Það var svona sterkrauð trégirðing fyrir aftan mig og
ég stend sperrtur – hver vöðvi í viðbragðsstöðu – og pabbi kemur hlaupandi
nær og nær og ég hugsa: Ég er með þetta. Og ég er með markmannshanska
líka sem ég fékk í afmælisgjöf – pabbi kemur nær og nær og NEGLIR! og
boltinn þýtur framhjá mér og hæfir girðinguna með ægilegum smelli og ég
svona dett niður og fer að hágráta og finn bara hvernig veröldin æpir á mig:
Þú átt ekki séns, litli! Og ég tapa. Pabbi þurfti að halda á mér inn, hágrátandi
rúst.
Ég held að þetta hafi mótað mig allar götur síðan: það er alltaf við ofurefli
að etja. Ég er þakklátur pabba fyrir að hafa kennt mér þá lexíu snemma með
svo afdráttarlausum hætti.
Varstu snemma læs? Lastu mikið þegar þú varst barn? Hver var uppáhalds-
bókin?
Konan mín var víst byrjuð að lesa þegar hún var þriggja ára og búin að
plægja í gegnum Proust og Marguerite Duras og fleiri franska meistara fyrir
tíu ára aldur, en ég var rólegri í tíðinni og held að ég hafi bara lært að lesa í
skóla. Ég var alltaf meira fyrir að búa sjálfur til sögur í kollinum en að lepja
upp sögur annarra og lék mér þá með einhverjar fígúrur – aðalfígúran hét
Höndin. Það var sem sagt höndin á mér, sú hægri.
(Sverrir lyftir og snýr hendinni.)
Hún lenti í ófáum ævintýrum með ýmsum aksjónfígúrum; táningsninj-
unum í Turtles, legó-körlum. Ég bjó til sögur og teiknaði en ég var ekki
bráðger sem lesandi og las aðallega myndasögur fram eftir aldri, bæði nýjar
og gamlar, Tinna og Lukku Láka og Andrés-blöð – það lesefni mótaði mig
þegar ég var yngstur. Ég man sterkt eftir að hafa lesið Kapalgátuna eftir
Jostein Gaarder, einnig mannætu-nóvelluna hans Edgars Allan Poe, og ég
las svo sem margt, man ekki hvað, en ég á alltaf minningu þegar mamma
sagði við mig: Þú ert svo klár, Sverrir, þú ættir að lesa meira. Á því tímabili
spilaði ég mestmegnis tölvuleiki: Silent Hill, Starcraft, Resident Evil, Halflife,
Tekken … Áður spilaði ég Gameboy: Super Mario Bros, Zelda, Tetris. Annars
er ég þannig gerður að ég get setið einn í herbergi með ekkert að gera nema