Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Page 19
M é r þ y k i r m j ö g g a m a n a ð v e r a b a r n
TMM 2017 · 1 19
vansköpuð skrif: leggja áherslu á flæði frekar en gæði. Og svo koma skrapandi
skrif – sem eru hættuleg, því þá er maður stundum byrjaður að skrapa upp af
botninum innra með sér, það er lýjandi andlega. Skapandi niðurrif eru líka
nauðsynleg: að kunna að skera burt og sleppa textum frekar en sletta textum.
Og loks koma hrapandi skrif: Þá gefur maður út örlítið brot af skrifunum og
er í frjálsu falli.
En nóg um það, að loka sig af og lesa, skrifa og hugsa er besta námið sem ég
hef stundað. En ég held að það verði æ erfiðara að loka sig af – að þora að loka
sig af. Sjálfur hef ég tekið tarnir þar sem ég hvíli mig á samfélagsmiðlunum
mánuðum saman, skoða sjaldan tölvupóstinn – í eitt ár var ég ekki með
farsíma.
Hvenær byrjaðir þú að skrifa?
Fimm ára orti ég fyrsta ljóðið til bróður míns. Svo þegar ég var tólf ára
fékk ég álagsmeiðsli í hnén og gat ekki hreyft mig í þrettán mánuði. Ég var
mikill fótboltastrákur og þurfti að hætta í fótbolta í meira en ár, var alltaf
með drynjandi verk í öðru hvoru hnénu. Þetta hvíldi þungt á mér. Ég varð
hálf þunglyndur eftir á að hyggja og ég þjáðist líka af öðru – og um það
langar mig til að skrifa – hálfgerðu lystarstoli. Ég var svo hræddur um að
þegar ég sneri aftur yrði ég orðinn svo feitur að úti væri um feril minn sem
fótboltahetju. Þannig að ég hætti eiginlega að borða í heilt ár. Borðaði ég
eitthvað skráði ég jafnvel hjá mér kaloríufjöldann. Ég varð náfölur og hálf
skrítinn í kollinum. Þá byrjaði ég að teikna og spila á gítar og breyttist í
innhverfari og listrænni náunga.
Stundum finnst mér þetta hafi verið stefnumótandi atvik.
Já, og þá fer ég líka að lesa meira, las fyrstu bækurnar eftir Thor frænda,
Halldór Laxness, Þórberg Þórðarson, Ástu Sigurðardóttur. Svo komu aðrir
höfundar: Bukowski, Paul Auster, Dostojevskí, Saramago, Susan Sontag,
Daniil Kharms, Tsjekhov …
Hvernig eru hnén núna?
Hnén eru bara frábær, takk! Þetta lagaðist alveg. Fínustu hné.