Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Síða 34
K r i s t í n Ó m a r s d ó t t i r
34 TMM 2017 · 1
Um fegurð tilgangsleysisins og hvað það getur verið gaman að lifa í sam-
hengis-, tilgangsleysi og kaosi – eða verðum við að geyma það samtal þar
til búið verður að bjarga heiminum?
Eða farga heiminum? Þá fáum við okkur kókosolíu-hafragraut með chia-
fræjum og hittumst svo í kaffi efst á tindi brunarústanna. Förum yfir stöð-
una daginn eftir ragnarök.
***
Það verður nú eitthvað. Ertu hugrakkur?
Ég get verið hugrakkur. Fólk hefur oft sagt mér að ég sé hugrakkur af því
það krefjist hugrekkis að standa frammi fyrir fólki, tala, lesa upp úr bók og
flytja tónlist – sjálfum finnst mér það auðvelt. Það krefst líka hugrekkis að
lesa bækur eftir aðra. Þannig hugrekki kann ég að meta. Að vera hugrakkur
andlega frekar en líkamlega. Og kannski er það eina sanna hugrekkið: sú
dirfska sem sprettur af ást. Það krefst líka hugrekkis að eignast barn.
Úff, já. Ertu ævintýragjarn, nýjungagjarn?
Í sköpun já, en það þarf oft að ýta mér út í ævintýri í ytri heiminum – þau
kynda undir hugmyndina – gömlu klisjuna frá Flaubert – að ef þú ert agaður
í einkalífinu verður þú villtari í sköpunarstarfinu. Líf mitt var kaótískt og
klikkað á tímabili en eftir að ég fór að vakna snemma og róast þá er ég miklu
kreatívari. Ég er ævintýragjarn þannig.
Já, maður hefur heyrt að ytri agi valdi innri frjósemi en líka af mörgum
afkastamiklum rithöfundum sem hafa allt í drasli, eru ógreiddir, mála sig
á augabragði áður en einhver bankar upp á með myndavél. Þetta eru höf-
undar sem komast varla í bað fyrir hugmyndum, eiga ilmvötn, ketti, eru
með söfnunaráráttu … Ertu kvöldsvæfur, næturhrafn?
Ég er næturhani og morgunhrafn. Og mér finnst gott að sofa – láta mig
dreyma. Helst á öllum tímum sólarhringsins.
Þú hefur líka búið í London og París. Hvað er langt síðan þú bjóst á Íslandi?
Sex, sjö ár, en ég hef dvalið á Íslandi heil sumur að vinna. Síðan ég var tutt-
ugu og fjögurra hef ég verið úti og með annan fótinn heima.
Hvar annars staðar vildirðu búa? Sveit, staður, borg?
Mér finnst erfitt að segja að ég búi á einum ákveðnum stað. Ég myndi vilja
búa aftur í París, í Reykjavík, jafnvel í Berlín, ég er dálítil borgarmanneskja.
Mér finnst gott að vera í sveit en ég gæti ekki búið í sveit nema í takmarkaðan
tíma. Þegar maður er að skrifa býr maður þar í hausnum á sér.