Tímarit Máls og menningar - 01.03.2017, Side 52
E i r í k u r Ö r n N o r ð d a h l
52 TMM 2017 · 1
Þú ert frjó og þér stendur ekki lengur á sama.
Þú ert frjó og barnlaus og þín bíður enginn.
Þú ert frjó og byltingin bíður. En enginn annar.
Þú ert frjó og flegin; ekkert nema blóðkögglar og beinagrind og rifnir
vöðvar, þú ert frjó og heldur augunum uppi í tóftum sínum með berum,
köldum horblautum kjúkunum, þú ert frjó og dregur skorpna þarmana á
eftir þér einsog brúðarslör; þú ert frjó og þanin og bólgin, búið að kítta upp
í götin, stinga á kýlin, drena þau og sjóða gröftinn niður í næturkrem fyrir
heldri manna húsfreyjur.
En þú ert allavega frjó og þú ert fótógenísk.
Þú ert barn og þú ert frjó, gamalmenni og þú ert frjó, ferð í gröfina frjórri
og rotnar ekki heldur öðlast eilífa húð, eilífar tennur og beinabyggingu
þinnar innri gyðju; þú ert frjó í yfirstærð og undirfötum, frjó að ofan upp
undir brjóst og frjó að neðan niður að hnjám, ekki bara andlit heldur líka
ílát, ekki bara leikfang heldur líka dekurdós.
Þú ert frjó og knésetur sykurþarfir, drottnar yfir hvítu hveiti, tortímir kol-
vetnum og étur hreina lífrænt ræktaða appelsínuhúð í morgunverð; þú ert
frjórri á fjórum fótum fyrir tilstuðlan smáskammtalækninga, heilbrigðrar
sjálfsmyndar og fylgjenda þinna á Snapchat, frjórri á bakinu fyrir tilstuðlan
grindarbotnsæfinga og barneigna (endurtakist eftir þörfum), frjórri emjandi
reyrð í flesk í smjörbaði með kóríander, fjölónæman lekanda, stút á vörum,
hvítlauki, klíníska sjálfsdýrkun og kínverskum pipar.
Þrýstin stendur frjó á höndum svo holdið drúpir niður fyrir axlir; þú ert
frjó í hnjánum, frjó á tánum, frjó í lófunum, geislar af móðurlífi, móð og
lúin með rauðsprungin augu sem troða sig tvíhent út af hráfæði, sinaberu
og blóðugu kjöti og gullfiskum á beininu beint úr búrinu, samansúrruðum
meyjarhöftum hinna margnýttu sem sprauta hreinni kviðfitu í rjóð brjóstin,
fairtrade tíðablóði í baugana og tóna mikilfenglega magavöðvana við spegil-
inn, tala við spegilinn með grenjuröddinni sinni.
Þú ert frjó, segja þau.
Guð hvað þú ert frjó, segja þau.
Ótrúlegt, segja þau, þú ert svo frjó.
Þú verður áreiðanlega bráðum aftur frjó, segja þau. Ekki hafa áhyggjur
af þessu, það stendur öllum á sama. Ef maður talaði við aðra einsog maður
talar við sjálfan sig ætti maður fljótt enga vini. Með fitusmurðan gæsagogg á
vörunum, beinhvíta þvottaklemmu á nefinu og djúpt bleikdröfnótt hrúður
upp eftir lærunum; þú mátt skilja hattinn eftir á höfðinu, mátt skilja and-
litið eftir á feisinu, fara með linsurnar í sund, stappa fylgjunni saman við
plokkfiskinn og gefa brjóst í gufubaðinu. Í guðanna bænum. Lykilorðið er
WeLoveBoobsAndBabies69.
Þú ert frjó og sterk, með fætur einsog flóðhestur.
Þú ert frjó og fögur, með andlit einsog granítharður gillzlimur.