Náttúrufræðingurinn - 2020, Síða 6
Náttúrufræðingurinn
6
INNGANGUR – LÝSING ÁRINNAR
Öxará er ein af þeim ám sem allir
Íslendingar hafa heyrt nefnda og vita
nokkur deili á enda á hún sér traustan
sess í sögu og bókmenntum þjóðarinnar.
Þrátt fyrir það hefur hún ekki verið
mikið rannsökuð, rennsli hennar hefur
aldrei verið mælt og rennslissveiflur
hafa ekki verið skráðar skipulega. Tölur
um hæð Öxarárfoss eru á reiki í fræði-
ritum og ýmislegt í sögu árinnar er á
huldu. Hér á eftir er fjallað um þessa
þætti og birtar fyrstu nákvæmu rennsl-
ismælingarnar sem gerðar hafa verið
í ánni (1. tafla). Einnig eru birtar mæl-
ingar á hæð Öxarárfoss. Reynt er að ráða
í sögu árinnar, breytingar á farvegum og
rennsli um láglendið, hvenær hún fór
að falla til Almannagjár og hvað hæft
sé í þeirri gömlu sögn að fornmenn hafi
veitt henni til þingstaðarins og í leiðinni
skapað Öxarárfoss.
Öxará á upptök sín í Myrkavatni , litlu
stöðuvatni á mörkum Árnessýslu og
Kjósarsýslu sunnan og vestan við Botns-
súlur. Vatnið er 0,67 km2 að flatarmáli
og liggur í rúmlega 410 m hæð yfir sjó.
Í því er urriði en ekki bleikja.1 Úr vatn-
inu fellur áin til suðausturs um Öxarár-
dal. Innarlega á dalnum bætist í hana
árspræna sem kemur hátt úr hlíðum
Botnssúlna og Súlnaá nefnist. Fallegur
foss er skammt ofan ármótanna við
Öxará en sjálf fellur hún þar um snotur
gljúfur með svipmiklum klettamynd-
unum. Áin fellur til suðausturs norðan
við Búrfell og síðan um Kjóavelli. Þar
breiðir áin úr sér á fallegum eyrum
sem lindalækir liðast um. Neðan við
vellina eru ármót við Búrfellsá, sem er
helsta þverá Öxarár. Ofan við Brúsastaði
tekur áin nánast 180° beygju fyrir svo-
kallaðan Rana og fellur þar í fossum og
flúðum niður á láglendið. Þarna lét Jón
Guðmundsson bóndi á Brúsastöðum
og bryti í Valhöll virkja Öxará upp úr
1930 eins og síðar verður rakið. Virkj-
unin starfaði í nokkra áratugi og sjást
ummerki hennar enn vel. Neðan virkj-
unarinnar rennur áin meðfram hæðar-
hrygg og síðan út á flatlendið við Brúsa-
staði þar sem heitir Kerlingarhraun,
sem er hluti af Þingvallahrauni. Þarna
hefur hún hlaðið miklu efni á hraunið
og myndað stóra framburðarkeilu úr
sandi og möl. Um hana liggja margir
farvegir, sem flestir eru þurrir, sumir til
suðurs, í átt að Kárastöðum en aðrir í átt
að Almannagjá. Farvegurinn sem hún
fylgir nú virðist fremur ungur og lítt
sorfinn en eldri farvegur sést í hrauninu
nokkru sunnan árinnar. Þessir farvegir
sameinast nokkru ofan við Öxarárfoss.
Hraunið er þversprungið og árfarveg-
urinn liggur yfir gjár og sprungur. Þar
tapast allmikið vatn úr ánni. Einn slíkan
stað má sjá nokkru upp af þjóðveginum
og brúnni. Þar er allvíð sprunga við ána
full af vatni. Sprungan er gömul og að
hluta til hulin jarðvegi en hér og hvar
sér þó í hana. Þar er hægt að sjá vatnið
streyma hægum straumi frá ánni og út í
hraunið. Vatnsmagn árinnar er sýnilega
mun meira upp við virkjunina gömlu en
það er við Öxarárfoss.
Í Öxarárfossi fellur áin fram af mis-
gengisbrúninni sem myndar Almanna-
gjá. Mjög lítill gljúfurgröftur hefur
átt sér stað þar í brúninni og sýnir
það ljóslega að farvegurinn er ungur.
Neðan við fossinn tekur áin 90° beygju
og rennur eftir gjánni alllangan spöl
undir háum hamraveggjum misgengis-
sprungunnar. Þarna er árbotninn þak-
inn möl allt niður að Drekkingarhyl.
Ofan við hylinn er stórgrýti og fram af
því fellur áin í flúðum niður að hylnum.
Vatnsborð Drekkingarhyls er um 12 m
lægra en í hylnum undir Öxarárfossi
(2. tafla).
Úr Drekkingarhyl fellur áin yfir
berghaft og í flúð, sem nefnist Neðri-
foss, út úr Almannagjá og niður á vell-
ina. Flúðin er um 5 m há og er undir
Öxarárbrúnni gömlu, sem síðar verður
rætt um. Á Völlunum dreifir áin úr sér
og kvíslast milli hólma og eyra, straum-
hörð efst en lygn þar sem hún fellur
til vatnsins. Öxará er fiskgeng að flúð-
inni neðan Drekkingarhyls sem er um
650 m ofan ósa.
GAMLIR FARVEGIR
Gamlir farvegir í hrauninu neðan
við Brúsastaði sýna að áin hefur áður
runnið á þessum slóðum til suðvesturs
um Kárastaðahraun meðfram Stór-
höfða og Kárastaðaási, sums staðar úti
á hrauninu, annars staðar milli hrauns
og hlíða. Vatnsnúið grjót er þar í farveg-
inum og sums staðar er hann nokkuð
grafinn. Þarna nefnist hann Árfar eða
Árför. Við Vinaskóg slær farvegurinn
sér frá hlíðinni. Þar hefur áin borið
talsverða malarfyllu út á hraunið og
kaffært vesturjaðar þess í allþykkum
lögum af fínmöl og sandi. Þegar nálg-
ast vatnið og hina fornu árósa breikkar
farvegurinn, klofnar upp og verður að
sléttum grasgrundum en þýfðir móar
eru á báðar hliðar, nokkru hærri. Úti í
vatninu er Árfarsgrynning. Öxará virð-
ist hafa runnið til vatnsins á nokkrum
stöðum í grennd við Skálabrekku og
breytt sér frá einum tíma til annars.
Mestu ummerkin eftir hana og mesti
framburðurinn er í Skálabrekkuvík
sunnan Skálabrekku. Þar upp af víkinni
eru gamlar strandlínur, malarkambar og
fleiri ummerki frá þeim tíma að yfirborð
Þingvallavatns var 10–13 m hærra en nú
er. Það var fyrir um 10.000 árum. Krist-
ján Sæmundsson kannaði og mældi
þessar strandlínur og skrifaði um þær
í grein í Náttúrufræðinginn fyrir rúm-
lega hálfri öld.2 Malarkambarnir teygja
sig inn á Þingvallahraunið og eru yngri
en það. Sagt er að áin hafi legið í Árfari
á landnámstíð og verður vikið að því
síðar. Ekki er ljóst hvar ósar hennar við
vatnið voru þá en líklegast er að það hafi
verið í Skálabrekkuvík. Á síðustu öldum
hefur áin aldrei komist í Skálabrekkuvík
í vatnavöxtum heldur runnið þvert yfir
hraunið beint sunnan Kárastaða. Þar
hafa orðið landslagsbreytingar og sig á
síðari tímum þannig að vatn gat flætt þá
leið yfir hraunið. Farvegurinn er ekki
auðsær en þó sjást vatnsnúnar klappir.
Árósinn sjálfur er sæmilega greinilegur.
Þarna rennur nú lítill lækur til vatnsins.
Efnislitlar framburðarfyllur eru með-
fram honum og við ströndina.
Ekki er ljóst hvenær Öxará hætti
endanlega að fara í hinn gamla farveg
sinn um Árfarið og til Skálabrekku. Á
fyrri hluta 20. aldar átti hún það til, eða
kvísl úr henni, að fara þessa leið. Þetta
gerðist oftast í leysingum þegar krapa-
og ísstíflur mynduðust í ánni. Í örnefna-
lýsingu frá 1939 segir svo:
„ ... stundum í leysingum stífl-
ast Öxará af krapi og íshröngli fyrir
innan Brúsastaði og flæðir þá vestur
hraunið sunnan undir Stórhöfða og
hefur myndað sér þar farveg greini-
legan … “.3
Þetta sýnir að fram eftir 20. öld gat
komið fyrir að áin leitaði í sinn gamla
farveg í Árfari og til ósa við Skála-
brekku. Nú er henni haldið stöðugri í
farvegi sínum með uppruddum garði.