Náttúrufræðingurinn - 2020, Blaðsíða 124
Náttúrufræðingurinn
124
8. mynd. Kanthleðsla Kóngsvegarins þar sem hann liggur úr vestri að brúnni yfir Flosagjá. Kanthleðslurnar sitt hvorum megin Kóngsvegarins að
brúnni komu í ljós þegar unnið var að framkvæmdum við útsýnissvæði. Ákveðið var að varðveita hleðsluna og var hún löguð lítillega undir stjórn
Minjastofnunar. Ljósm. Republik.
Hvernig mátti það vera að ákveðið var
að leggja þennan veg? Veg sem tækni-
lega var meingallaður og allar stofnanir
og sérfræðingar á sviði umhverfis- og
náttúruvísinda töldu óráð? Veg sem
ógnaði helgasta stað þjóðarinnar sem
búið var að skrá á heimsminjaskrá?
Svarið er í senn einfalt og flókið. Ein
meginástæðan fyrir því að svo fór sem
raun ber vitni er að bæði svokallaðir
heimamenn og þingmenn svæðisins
töldu vegarlagninguna vera heillaráð.
Því komst málið á dagskrá Alþingis
1994 og síðar á vegaáætlun 2003.
Ekki verður séð að hugað hafi verið
að hugsanlegum neikvæðum áhrifum
þegar ákvörðun var tekin, og kostnað-
urinn var stórlega vanmetinn. Þegar
heimamenn, Alþingi og Vegagerðin
hafa komið sér saman um eitthvað
sýnir reynslan að því verður trauðla
breytt þótt fram komi traust rök fyrir
hinu gagnstæða.
Þeir sem höfðu það lögbundna hlut-
verk að halda uppi vörnum fyrir Þing-
vallavatn, landslag og náttúru, tóku það
hlutverk ekki nægjanlega alvarlega.
Þingvallanefnd skilgreindi hlutverk sitt
með afar þröngum hætti og aðhafðist
því lítið. Umhverfisstofnun veitti tals-
verða viðspyrnu á meðan matsferlið
fór fram en gerði lítið gagn þegar fylgja
átti eftir skilyrði umhverfisráðuneytis
um mælingar á loftaðborinni mengun.
Umhverfisráðuneytið hafði á tímabili
mörg gögn í hendi til að stöðva málið
vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa
en nýtti það tækifæri ekki. Náttúran
fékk hreinlega ekki að njóta vafans. Það
fékk hins vegar vegurinn.
Um tíma leit út fyrir að UNESCO
gæti stoppað vegagerðina þar sem
íslensk stjórnvöld höfðu hug á að skrá
Þingvallavatn og Þingvelli sem nátt-
úruminjar á heimsminjaskrá. Það ferli
var síðan stöðvað, vegurinn var í meiri
metum en einstök náttúra svæðisins
og ávinningur af því að þetta einstaka
náttúrusvæði væri á heimsminjaskrá.
Sögur um vegagerð sem veldur eyði-
leggingu náttúruverðmæta á Íslandi
eru margar. Sagan um veg 365 væri
því sjálfsagt ekki merkileg ef ekki væri
Pétur M. Jónasson. Barátta Péturs gegn
vegi 365 á sér ekki mörg fordæmi. Pétur
er kominn á efri ár þegar áformin um
veginn koma fram í dagsljósið en það
brennur eldur í brjósti hans þegar hann
sér í hvert stefnir við vatnið sem hann
er uppalinn við og sem hann hefur gert
þekkt í vísindaheiminum.
Höfundur þessarar greinar var sam-
ferða Pétri á þessari vegferð og fann
fyrir sannfæringarkraftinum og von-
inni um að þetta færi vel. Pétur trúði
því að stjórnvöld tækju vísindin alvar-
lega, að vísindaleg rök hefðu að lokum
betur en misvitrir stjórnmálamenn,
hinir einsýnu „heimamenn“ og mis-
tækar opinberar stofnanir. Því miður
reyndist það ekki rétt. En á þessari
vegferð eignaðist Ísland hetju. Hetju
sem stenst fyllilega samjöfnuð við
hina bestu manndáð sem Jónas Hall-
grímsson hafði í huga þegar hann með
skírskotun til Þingvalla orti: Hvar er
þín fornaldar-frægð?