Náttúrufræðingurinn - 2020, Blaðsíða 112
Náttúrufræðingurinn
112
Þjóðgarðurinn á Þingvöllum. Heimsminjasvæði. Ljósgrænu línurnar sýna útlínur þjóð-
garðsins frá 1930–2004, dökkgrænu línurnar stækkunina. Kort af vef Heimsminjaráðsins
(slóð: http://whc.unesco.org/en/documents/117746). Landmælingar Íslands 2004.
Frá því að lögin um friðun Þingvalla
voru sett 1928 höfðu viðhorf til náttúru-
verndar gjörbreyst og umferð um þjóð-
garðinn var miklu meiri en áður. Reynir
Vilhjálmsson og Einar E. Sæmundsen,
landslagsarkitektar Þingvallanefndar,
lögðu til á árinu 1988 að allt Eldborga-
hraunið skyldi friðað. Í kjölfarið árið
1994 lét Skipulagsstofnun vinna skýrslu,
„Þingvellir og verndun vatnasviðs Þing-
vallavatns.“ Höfundar voru Pétur M.
Jónasson, Guðrún Jónsdóttir og Auður
Sveinsdóttir. Það var þó ekki fyrr en á
árinu 2004 að lögin frá 1928 voru endur-
skoðuð með lögum nr. 47/2004 og hið
friðhelga land á Þingvöllum stækkað í
228 km2. Jafnframt flutti umhverfisráð-
herra sérstakt frumvarp um að vernda
lífríki Þingvallavatns og vatnasviðs þess,
sem er ein stærsta grunnvatnsauðlind
á Íslandi. Var ég fenginn til að skrifa
greinargerð sem fylgdi frumvarpinu sem
varð að lögum nr. 85/2005.
ÞINGVELLIR Á HEIMSMINJASKRÁ
Í júlí 2004 samþykkti heimsminjaráð
UNESCO að skrá þjóðgarðinn á Þing-
völlum á heimsminjaskrá sem menn-
ingarminjar. Með skráningunni er stað-
fest einstakt menningarlegt gildi Þing-
valla sem Íslendingum ber að varðveita
fyrir gjörvalla heimsbyggðina. Umsóknin
um Þingvelli var lögð fram í febrúar 2003,
ári áður en lög nr. 47/2004 um stækkun
þjóðgarðsins voru samþykkt á alþingi,
en vernd UNESCO nær einnig til stækk-
unarinnar, þar á meðal til Arnarfellsins
og Þingvallavatns, eins og síðar verður
vikið að. Umsókninni fylgdi vernd-
aráætlun sem endurnýja skal á fimm ára
fresti. Frá 2011 hafa íslensk stjórnvöld
stefnt að því að tilnefna Þingvallavatn og
vatnasviðið allt á heimsminjaskrána sem
náttúruminjar. Það mál er í biðstöðu.
ÞINGVALLAVATN NÝTUR
FRIÐUNAR UNESCO
UNESCO-verndin tekur til þjóð-
garðsins alls eftir stækkun með með
lögunum frá 2004, til gamla þingstaðar-
ins og til um 50 tófta þingbúða úr torfi
og steini. Til heimsminjastaðarins telst
einnig Þingvallakirkja og Þingvallabær-
inn, sem og bleikjan í Þingvallavatni.
Með því að UNESCO-verndin tekur sér-
staklega til bleikjustofna vatnsins nýtur
búsvæði bleikjugerðanna fjögurra, sem
er Þingvallavatn allt, sömu verndar.
• Fjögur afbrigði bleikjunnar Selvelinus alpinus:
Dvergbleikja, kuðungableikja, murta og sílableikja.
• Tvö afbrigði hornsíla Gasterosteus aculeatus:
Tjarnarnálarsíli og hraunsíli.
• Tvær tegundir ferskvatnsmarflóa: Þingvallamarfló Crymostigius thingvallensis
og íslandsmarfló Crangonyx islandicus.
• Tvær tegundir rykmýs: Stóra toppfluga Chironomus islandicus
og ránmýið Procladius islandicus.
• Urriði, Salmo trutta, einn örfárra eftirlifandi stofna ísaldarurriða í Evrópu,
stofn sem lokaðist af í vatninu við lok ísaldar fyrir um 10 þúsund árum
og hefur lifað þar einangraður síðan.
EINLEND DÝR OG AFBRIGÐI Í ÞINGVALLAVATNI