Strandapósturinn - 01.06.1992, Blaðsíða 48
honum eftirför án þess hann verði hennar var. Segir ekki annað af
því en að hún verður þess vör, að Guðmundur bóndi hennar og
ókunn kona eru í innilegum faðmlögum og láta blítt hvort að
öðru, og talast þau við án þess hún heyri hvað þeirn fer á milli í
orðum.
Fer þessu svo fram um stund að Guðrún gerir ekki vart við sig.
En er hún gerir það verður þeim báðum mjög hverft við. Átelur
Guðrún bónda sinn fyrir ótrúmennsku hans við sig og hefur þung
orð um það. Er hún þagnar segir hin ókunna kona af þunga: „Illa
gerðir þú kona, er þú raskaðir friði okkar. Ekki mundi þig hafa
sakað ef þú hefðir látið það ógert. Vita skaltu að ég er álfkona og
bý í þessum borgum. Höfum við bóndi þinn átt hér unaðsstund
saman á gamlárskvöldum eins og þú hefur komist að. Mun þetta
verða okkar síðasti fundur úr því þú raskaðir friði okkar. Harma
ég það að svo skuli orðið vera. En þú sjálf munt ekki gott af hljóta.
Og fleira mun verða brotgjarnt í höndum þínum en tryggð bónda
þíns“. Að svo mæltu hvarf konan og var þungt í skapi. En þau
hjónin héldu til bæjar og voru þögul.
En það er af Guðmundi að segja, að upp frá þessu gerðist hann
svo áleitinn við kvenfólk að til vandræða varð. Og sagt var að eftir
þetta hefði honum haldist illa á vinnukonum og stúlkur ógjarnan
ráðist í vist til þeirra hjóna.
En það er af Guðrúnu að segja, að henni fór að verða slysagjarnt
með margt, sem hún hafði undir höndum eða milli handa, að vart
þótti einleikið. Væri hún með brothætta hluti þá var eins og þeir
dyttu úr höndum hennar og ónýttust.
Þessu til sönnunar sagði Gyða á Finnbogastöðum mér, að þegar
fóstursonur hennar, Guðmundur Pétursson í Ófeigsfirði kvæntist
Elísabetu Þorkelsdóttur, fyrri konu sinni, þá var Guðrún fóstra
hans þar að aðstoða við undirbúning brúðkaupsveislunnar. Var
hún þá með leirtau í fanginu, sem nota átti, en var fágætt á þeim
tímum og þótti dýrmæt eign. Tókst þá svo slysalega til að hún
missti leirtauið úr höndum sér ofan á gólf og það eyðilagðist. Þótti
þetta bæði skaði og leiðindi. Var þetta haft sem dæmi um áhrif
orða álfkonunnar.
Guðmundur Pétursson var aðeins 15 ára gamall þegar fóstri
46