Strandapósturinn - 01.06.1992, Blaðsíða 132
íshús reist á Gjögri
24. júní 1904 flutti Níels í nýreist íbúðarhús sem hann nefndi
Grænhól. Var hann síðan jafnan kenndur við þennan bæ sinn. En
6. júní næsta ár skrifar hann í dagbók sína að Jakob Thorarensen
hafi mælt honum lóð á Gjögri „rjett vestanvert við ístopt herra P.
Frænda . . .“ Hér mun Níels eiga við Pétur Guðmundsson, sem þá
var kominn hátt á sjötugsaldur, og var sjómaður á Gjögri alla tíð.
Af orðum Níelsar verður að ráða að þarna hafi verið ófullgerð
ísgeymsla eða leifar ísgeymslu.
Vitað er að Níels kynntist því snemma á búskaparárum sínurn
hvaða gagn mætti hafa af íshúsum. Aður er það komið fram að
hann var úr Steingrímsfirði, en þar reisti Grímur Stefánsson í
Húsavík íshús 1899 og Björn Halldórsson á Smáhömrum ári síðar.
Um svipað leyti ætlaði bróðir Níelsar, Halldór Jónsson í Miðdals-
gröf, að koma sér upp íshúsi en úr því varð aldrei annað en tóftin.
Haustið 1905 reisti Níels ásarnt nokkrum nágrönnum sínum
íshús. Hann skrifar svo í dagbók sína 21. nóvember 1905: „Við
vorum við íshúsið Gísli Mundi Líður ogjeg og nú er Ishúsið klárað
. . .“ Þeir sem þarna unnu með Níels voru að öllum líkindum Gísli
Guðmundsson, sem lengi var sjómaður á Gjögri, Guðmundur
Sveinsson, sem einnig var sjómaður þarna, og Lýður bóndi Lýðs-
son á Víganesi, sem var að vísu húsmaður þar er hann byggði
íshúsið.
Engan ís hafa þeir félagar fengið um haustið en 21. febrúar
1906 skrifar Níels: „Byrjað að taka ís í íshúsið vorum 5 jeg,
Hjálmar M.H. Gísli og Jens L. fyrir Munda.“ Þarna segir að Jens
L. hafi unnið fyrir Munda. Þetta bendir til að ofangreindir ein-
staklingar hafí átt íshúsið. Hérna mun átt við Hjálmar Guð-
mundsson, bróður Gísla sem fyrr var nefndur, og var sjómaður á
Gjögri alla tíð, M. H. mun vera Magnús Hannibalsson, sem áður
hafði verið í Kúvíkum en var síðar verkamaður á Djúpuvík, og
Jens L. er sennilega sonur Lýðs á Víganesi.
Níels mældi svo íshúsið næsta dag og sagði það vera 145 tenings-
álnir. Hver teningsalin af ís hafi vigtuð reynst vera 314 pund,
130