Strandapósturinn - 01.06.1992, Blaðsíða 97
fjallsins í ágætu göngufæri og þótt neðstu brekkurnar stæðu næst-
um því upp við manninn skilaði okkur vel áfram, enda báðum
fremur létt um gang. Er upp í Skörðin kom var þar nokkur
strekkingur af suðvestri og það hvein einkennilega í fjallseggjun-
urn beggja vegna. Þarna kvöddumst við. Elías hélt aftur heimleiðis
en ég niður í næstu vík. Eg fór mér hægt undan brekkunni, hjalla
af hjalla. Það var eins og þetta ætlaði aldrei að taka enda og ég var
orðinn hálf undarlegur í hnjáliðunum er ég náði niður á láglend-
ið. Vík þessi hét og heitir enn Barðsvík, var í byggð fram um
síðustu aldamót, að minnsta kosti annað slagið, en hefur nú verið í
eyði síðan. Hún ber nafn sitt af fjallsrana sem liggur norðan
hennar í sjó fram og nefnist Barð eða Barði eins og við nágrannar
þess kölluðum það jafnan. Er innar dregur á fjallið nefnist það
Barðsvíkurháls. Bærinn hefur staðið nokkuð langt frá sjó norðan
við ána eða ósinn sem í víkina rennur og þarna blöstu rústirnar við
mér með alla sögu þessa afskekkta staðar grafna í gráfölan svörð-
inn. Ósinn var ísi lagður og áður en ég lagði út í hann dokaði ég
aðeins við, varð litið til strandar og sá að talsvert brim hlóðst að
landi, þótt komið væri vor samkvæmt almanakinu, og landið
sýndist vera svo marflatt að hæstu öldunum hefði með leik tekist
að færa það í kaf, ef þær hefðu haldið sömu hæð inn yfir strönd-
ina. Mér virtust þær sumar gnapa yfir mér, og það setti að mér
hálfgerðan hroll. Úti við sjóinn var ægissandur og hafði brimið
hlaðið honum upp í nokkuð háan kamb meðfram öllum víkur-
botninum. Upp úr kambinum stóðu á stöku stað grisnir melgres-
istoppar sem minntu á rytjulegt hár eða jafnvel blettaskalla.
Barðsvík var annáluð rekajörð, enda liggur hún beint fyrir
opnu hafi og þar lágu trjábolir eins og hráviði út um allt, sumir
stóðu jafnvel út úr ósbökkunum langt inni í landi, hvaða heljarafl
sem hefur nú fleytt þeim þangað inneftir og það á móti straumn-
um.
I æsku heyrði ég stöku sinnum minnst á reimleika þarna í
víkinni og oftast voru þeir bundnir við sjóslys sem þarna átti sér
stað rétt fyrir síðustu aldamót. Lítið þilskip, Draupnir að nafni,
hrakti þá þarna að landi í norðan áhlaupi og fórst með allri áhöfn.
Um þennan sorglega atburð vissi ég fátt eitt þegar sú ferð var
95