Andvari - 01.01.2014, Blaðsíða 134
132
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
með annan bandarískan höfund sem síðar var á kreiki, Ernest Hemingway.2
Auk þess að vera báðir í hópi fremstu smásagnahöfunda enskrar tungu eiga
þessir annars ólíku höfundar það sameiginlegt að hafa átt mjög misjafnt gengi
meðal bókmenntafólks í heimalandi sínu. Hugsanlega hefur athyglin sem
gjarnan beinist að ævibrölti þeirra beggja einmitt unnið gegn viðurkenningu
á skáldhæfileikunum. I tilviki Poes hefur svo sumum þótt rómantísk og hátt-
bundin ljóðlist hans vera bundin sínum tíma, en það væru fremur ljóð Walts
Whitmans og Emily Dickinson sem vísuðu fram til bandarískrar ljóðlistar
á 20. öld. Á hinn bóginn hefur hrollvekjuþátturinn í rómantík Poes, sem og
ævintýrabragurinn, fantasían og glæpirnir í sögum hans þótt tengjast ýmsum
lykilþáttum afþreyingarbókmennta og þoka honum þar með í annan flokk
en þeim höfundum sem teljast mynda stoðvirki þjóðarbókmenntanna. Upp
í hugann koma fræg ummæli Hemingways um að allar bandarískar nútíma-
bókmenntir væru runnar frá einni bók eftir Mark Twain, semsé Stikilsberja-
Finni. „Það var ekkert áður og það hefur ekki komið neitt eins gott síðan.“3
Svo mörg voru þau orð. En Hrafninn hans Poes á svar við þessu og líklega
fann Hemingway ekki bréfið frá Poe, bréfið sem leitað er að í smásögunni
„The Purloined Letter“, bréfið sem er svo vel falið einmitt vegna þess að það
blasir við, er í allra augsýn, er þar sem faldir hlutir eiga ekki að vera. Það er
of mikið heima til að vera heima; það er það sem Freud kallaði löngu síðar
„umheimlich", semsé heimullegt - en það er einmitt tvíeggjað orð á íslensku,
nær til þess sem er nákomið, leynilegt, ókennilegt. Þannig er því farið í verk-
um þessa skálds skugganna - skuggarnir eru stundum ósýnilegir en þeir fela
samt.
En hafi ýmsum frammámönnum í bandarísku bókmenntalífi láðst að sjá
skilaboðin frá Poe eða átta sig á þeim, átti það ekki við um ýmsa lesendur og
skáldsystkin í öðrum löndum. Eitt af meginskáldum Frakka á 19. öld, Charles
Baudelaire, lék þar lykilhlutverk. Hann þýddi og kynnti verk Poes og þessu
fylgdu önnur frönsk skáld eftir; m.a. Rimbaud, Verlaine og Mallarmé. Frá
þessu franska eða evrópska sjónarhorni eru tengsl Poes við nútímabókmenntir
frá lokum 19. aldar fram á okkar daga allt önnur að sjá en áður var nefnt. Árið
1924 gekk franska skáldið og esseyistinn Paul Valéry svo langt að segja að
Poe hefði með öllu gleymst ef Baudelaire hefði ekki kynnt hann til sögunnar
í evrópsku bókmenntalífi. I inngangi greinasafnsins Poe Abroad, sem út kom
fyrir nokkrum árum, segir ritstjórinn, Lois Davis Vines, að þetta sé í senn
ofmælt og vansagt hjá Valéry. Þó að Frakkar vilji gjarnan eigna sér Poe, verði
ekki framhjá því horft að bandaríska skáldið átti sér marga dygga aðdáendur
heima fyrir allt frá byrjun. Þetta er vitaskuld rétt hjá Vines - því má til dæmis
ekki gleyma að það er erfitt að finna stakt ljóð sem slegið hefur rækilegar í
gegn á svipstundu í einu landi en „Hrafninn“ hans Poes í Bandaríkjunum.
Á hinn bóginn segir Vines að Baudelaire hafi ekki aðeins ýtt verkum Poes